Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
21.9.2009 | 19:12
Ástæðan er kolröng reikningsaðferð visitölu og ónýtur gjaldmiðill.
Ná ekki endum saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mér var hugsað til þess hvort það væri ekki réttur allra að þegar við eigum að borga einhvern reikning að hann sé a.m.k. réttur. Ef hann er of hár er manni oftast sagt að henda honum og maður fær leiðréttan reikning sendan þar sem sá gamli var óvart vitlaus. Þá fær maður nýjan reikning sem er réttur og maður borgar hann. Slík aðgerð kallast leiðrétting á skuld, ekki niðurfelling eða kostnaður fyrir þann sem gefur út þann reikning.
Vegna vitleysu í útreikningi á vísitölu og brostnum forsendum er hver einasti reikningur sem við fáum vegna verðtryggðs-íbúðarlána vitlaus og í raun ættum við að senda til baka eða eyða vegna þess að hann er rangur og einfaldlega alltof hár.
Þetta er náttúrulega einföldun, en útskýring á mannamáli fyrir þá sem skilja ekki hugtakið leiðrétting á móti niðurfellingu eða kostnaði.
Þessu til rökstuðnings langar mig að gefa mér það leyfi að birta grein sem var birt á Vísir.is í gær 19.september eftir Örn Karlsson. Greinin er að mínu mati mjög góð og einnig á mannamáli.
Ég hvet þig til að lesa þessa grein rólega og upphátt.
"Það er erfitt að hrekja þá fullyrðingu fjölmargra skuldara að eign í fasteign minnki iðulega eftir því sem lengur er greitt af verðtryggðum lánum sem á henni hvíla. Fólk hefur grunsemdir um að það sé maðkur í mysunni og upp vakna spurningar um eignarréttinn sem á að vera varinn af Stjórnarskrá.
Verðtrygging
Verðtrygging fjárskuldbindinga var innleidd með svokölluðum Ólafslögum árið 1979. Verðtryggingunni var ætlað það hlutverk að leiðrétta skekkju af völdum verðbólgu. Skekkjan fólst í því að veruleg tilfærsla eigna var til þeirra sem skulduðu frá þeim sem áttu sparifé eða veittu lán á vöxtum sem títt voru langt undir verðbólgunni, sem æddi áfram óbeisluð. Við Ólafslögum tóku ný lög um vexti og verðtryggingu árið 2001. Sama meginforsenda er fyrir verðtryggingunni og áður, þ.e. að verja almennt sparifé og lánsfé landsmanna fyrir rýrnun af völdum innlendrar verðbólgu eins og segir í greinargerð með frumvarpinu. Samkvæmt lögunum er vísitala neysluverðs lögð til grundvallar mælingu á verðbólgu.
Verðbólga
Verðbólga er peningatengt fyrirbæri. Verðbólga gefur til kynna hvernig peningalegt virði eigna breytist yfir tíma, þ.e. hvernig kaupmáttur peninga breytist (minnkar). Að meginstofni á verðbólga sér því stað þegar peningar tapa verðgildi. Þessi skilgreining á verðbólgu er óumdeild og er verðtryggingunni ætlað það hlutverk að leiðrétta fyrir verðbólgu þannig að lántaki og lánveitandi séu jafnsettir yfir lánstímann. Jafnsettir að því leyti að ekki verði eignatilfærsla á milli þeirra önnur en markast af höfuðstól lánsins og vöxtum þess.
Vísitala neysluverðs
Vísitala neysluverðs telur allar verðbreytingar á öllum einingum sínum alltaf. Löggjafinn hefur metið það svo að þetta sé nægilega góð nálgun á verðbólgu til að hún dugi sem leiðréttingargrundvöllur í verðtryggingu.
Atvikshækkanir einstakra eininga
Alltaf gerist það jafnt og þétt að einstakar vörur hækka eða lækka í verði óháð kaupmætti peninga. Slíkar breytingar eiga ekkert skylt við verðbólgu og ættu eðli máls samkvæmt ekki að vera inn í verðtryggingargrunni. Lánveitandi fer almennt ekki fram á að lántaki verji hann fyrir því að ekki rigni í Brasilíu þannig að hann fái bætur ef kaffiverð hækkar þess vegna. Lánveitandi fer almennt ekki fram á að lántaki verji hann fyrir stríði í Miðausturlöndum þannig að hann fái bætur ef olíuverð hækkar þess vegna o.s.frv.
Verðtryggingunni er þvert á móti ætlað að tryggja hlutleysi og taka áhættu út úr lánaviðskiptum. Öll áhætta lánagjörninga á að endurspeglast í vaxtastigi lánsins en ekki í verðtryggingunni. Verðtryggingu er eingöngu ætlað að verja verðgildi þeirrar fjárhæðar sem er lánuð. Ef atviksbreyting á verði vöru fer inn í verðtryggingarvísitölu leiðir það til óumsaminnar eignatilfærslu. Gefum okkur að um veðlán sé að ræða. Ef lánveitandinn fær bætur vegna hækkunar á vöru og hækkunin er ótengd kaupmætti peninga þá hækkar höfuðstóll veðlánsins og hrein eign í fasteigninni rýrnar að sama skapi. Rýrnunin á sér stað vegna þess að fasteignin hækkaði ekki í verði til samræmis vegna þess að það var ekki verðbólguástand. Kaupmáttur peninga hélst óbreyttur.
Hamfarir
Atviksbreytingar eru jafnan litlar samanborið við verðbólgubreytingar og því hefur eflaust ekki þótt taka því að horfa til þeirra í verðtryggingargrunninum. Og þess vegna hefur sennilega engan órað fyrir þeim stórkostlegu atvikshækkunum á tveimur liðum neysluverðsvísitölunnar með afleiðingum sem líkja má við hamfarir. Allt samband milli skuldara og lánveitenda brenglaðist á fjögurra ára tímabili frá miðju ári 2004 til ársbyrjunar 2008. Þessi brenglun hefur leitt til stórkostlegrar eignatilfærslu frá skuldurum til lánveitenda. Átt er við hækkun fasteignaverðs í kjölfar innkomu bankanna í ágúst 2004 ásamt hækkuðu lánshlutfalli Íbúðalánasjóðs í kjölfarið og hækkun olíuverðs á heimsmarkaði. Í hvorugu tilfellinu voru verðhækkanirnar afleiðing minnkandi verðgildi peninga og þar með verðbólgu. Húsnæðisverð vegur allt að 17% vísitölunnar og olía og bensín allt að 5%. Þegar þessir liðir margfaldast í verði verður stórhækkun á vísitölunni. Hér er ekki tekið með í reikninginn afleidda hækkun annarra liða í vísitölunni vegna áhrifa olíuverðs á verðmyndun þeirra.
Hafa ber í huga í þessari umræðu að gengisvísitala íslensku krónunnar var mjög stöðug allt tímabilið sem þýðir að kaupmáttur íslensku krónunnar hélst stöðugur. Grunnforsenda fyrir verðbólgu var því svo gott sem ekki til staðar allt tímabilið. Höfum jafnframt í huga að verulega stór hluti neysluvara á íslenskum markaði er innfluttur og því er gengi íslensku krónunnar góður mælikvarði á forsendur verðbólgu.
Það er því hægt að halda því fram að hækkun húsnæðisverðs og olíu og bensíns á íslenskum markaði hafi fyrst og fremst verið atvikshækkun og því hverfandi líkur á að hækkanir þessar stafi af verðbólgu, þ.e. að peningar hafi tapað verðgildi.
Í því orsakasamhengi sem hér er fjallað um getur vara hækkað í verði af þremur ástæðum.
Vara getur hækkað í verði vegna þess að kaupmáttur peninga rýrnar (verðbólguhækkun) og fylgja þá jafnan aðrar vörur og þjónusta með. Í öðru lagi getur vara hækkað í verði þrátt fyrir að kaupmáttur peninga helst stöðugur, alltaf er hægt að rekja slíka hækkun til atviks eða aðstæðna (atvikshækkun). Í þessu tilfelli hækka aðrar vörur ekki samhliða nema ef varan er partur af verðmyndun þeirra. Í þriðja lagi geta vörur hækkað vegna blöndu af þessu tvennu.
Heimsmarkaðsverð á olíu
Frá hausti 2003 og fram í ársbyrjun 2008 hækkaði verð á olíu gífurlega, úr ca $25 tunnan í vel yfir $120. Um þessar mundir er olíuverðið í kringum $68. Það er óumdeilt að þessi hækkun er óháð gjaldmiðlum heimsins og stafar af aukinni eftirspurn m.a. Kínverja og spámennsku á mörkuðum. Þessi hækkun á heimsmarkaði leiddi beint til hækkunar á eldsneytisverði á Íslandi. Verðhækkunin er þannig ekki verðbólgudrifin eða m.ö.o. ekki tilkomin vegna þess að peningar hafa tapað verðgildi sínu. Það sem síðan gerist í verðtryggingarkerfi Íslendinga við þessar aðstæður er að verðhækkunin mælist í vísitölu neysluverðs og þar sem hún er notuð beint til verðtryggingar verður ósamningsbundin eignatilfærsla staðreynd t.d. með hækkun höfuðstóla veðlána. Lánveitandinn fær hreinan arð líkt og hann væri í olíubransanum. Arðurinn kemur hins vegar úr vasa lántakandans, hrein eign hans í fasteigninni rýrnar.
Fasteignaverð
Fasteignaverð hefur mikið vægi í vísitölu neysluverðs, um 17% og því er hún mjög næm fyrir fasteignaverði. Innkoma banka og sparisjóða á fasteignalánamarkaðinn ásamt hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs er óumdeild meginástæða fyrir hinu risavaxna stökki á verði fasteigna í kjölfarið. Hærri veðhlutföll, betri vaxtakjör og hækkun hámarkslána settu kipp í eftirspurn eftir húsnæði sem leiddi til snarprar hækkunar á verði þeirra. Því er ekki til að dreifa að hækkun fasteignaverðs á þessu tímabili hafi verið verðbólgudrifin.
Í fyrsta lagi vegna þess að fasteignaverð hækkaði langt umfram verðbólgu, en á árinu 2005 hækkaði fasteignaverð um 32% á meðan vísitala neysluverðs hækkaði tæplega 6%. Í annan stað má benda á að gengisvísitalan fór stöðugt lækkandi frá hausti 2004 og út árið 2005, sem þýðir að gengi íslensku krónunnar var að styrkjast gagnvart gengi helstu viðskiptalandanna á tímabilinu og því í raun engin forsenda fyrir verðbólgu. Færa má rök fyrir því að mesti áhrifavaldur á breytingu vísitölunnar hafi einmitt verið fasteignaverðið og þannig hafi lánveitendur fengið sinn skerf af fasteignagróðanum með hækkun höfuðstóls fasteignaveðlána. Verðbólga var engin eins og áður sagði í þeirri merkingu að peningar töpuðu almennt ekki verðgildi sínu heldur þvert á móti gátu Íslendingar fengið meira fyrir krónuna í helstu viðskiptalöndunum. Óumsamin eignatilfærsla átti sér stað.
Það er einsýnt að frá hausti 2004 og fram til ársbyrjunar 2008 eru viðvarandi óumsamdar eignatilfærslur frá skuldurum til lánveitenda vegna mistaka í framkvæmd verðtryggingarkerfisins. Höfuðstóll veðlána hækkaði langt umfram verðbólgu og verðbótaþáttur greiðslna af veðlánum var langt umfram það sem raunveruleg verðbólga gat gefið. Sú viðleitni löggjafans að verja sparifé almennings með verðtryggingunni hefur snúist í höndum hans vegna þess að engin tilraun er gerð til að meta verðbreytingar óháðar kaupmætti peninga, þ.e. breytingar sem ekki tengjast verðbólgu og taka þær út úr neysluverðsvísitölunni.
Það eru meginmistök í framkvæmd verðtryggingar á Íslandi að skilgreina allar breytingar á vöru og þjónustu sem verðbólgubreytingar, m.ö.o. að allar verðbreytingar stafi af því að peningar hafi tapað verðgildi.
Allir sem vilja geta séð að það er fræðilega ómögulegt að allar verðbreytingar hverju nafni sem nefnist stafi af verðbólgu (stafi af því að verðgildi peninga rýrnar) því ef svo væri er jafnframt verið að segja að heimurinn sé óbreytanlegur. Þess vegna er líka fræðilega ómögulegt að vísitala neysluverðs sé sanngjarn grunnur til leiðréttingar á verðbólgu því hún tekur til allra verðbreytinga.
Álykta má að það sé með öllu ólöglegt að verðtrygging sé trygging fyrir öðru en áhrifum verðbólgu. Í fyrsta lagi vegna þess að í lögum um verðtryggingu (greinargerð með frumvarpi) er tekið á því að verðtryggingunni sé ætlað að leiðrétta fyrir verðbólgu án þess að annað sé nefnt. Í öðru lagi vegna þess að ef hún er trygging fyrir öðru verður óhjákvæmilega raunveruleg og óumsamin eignatilfærsla milli lántaka og lánveitanda.
Í fljótu bragði reiknast mér að ólögleg höfuðstólshækkun veðlána sé a.m.k. 10% á umræddu tímabili vegna atvikshækkana fasteignaverðs og olíu og bensíns.
Áður en Ólafslög tóku gildi var hrikaleg eignatilfærsla í gangi til skuldara frá sparifjáreigendum og lánendum. Þó er ekki hægt að segja lög hafi beinlínis verið brotin. Stjórnvöldum mistókst einfaldlega hagstjórnin og virði peninga þvarr með miklum hraða. Í stað þess að bæta hagstjórnina ákváðu stjórnvöld að innleiða verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hér hefur verið bent á að við framkvæmd verðtryggingarinnar hefur dæmið snúist við. Nú er í gangi hrikaleg eignatilfærsla frá skuldaranum til lánveitandans.
En nú ættu hins vegar þolendur að geta varið sig því framkvæmdin byggir á lögum sem augljóslega standast þá ekki sterkara lagaákvæði Stjórnarskrárinnar sem varðar friðhelgi eignarréttarins. Þannig er hægt að vinda ofan af þessum hörmungum ef lögum er fylgt.
Aðal meinið felst í því að vísitala neysluverðs er notuð óbrengluð til verðtryggingar. Vísitalan er ágæt til síns brúks: að miðla upplýsingum um breytingar á verði vöru og þjónustu, en hún er ósanngjarn og ólöglegur grunnur til verðtryggingar.
Skorað er á stjórnvöld að leita leiða til að leiðrétta ólögmætar eignatilfærslur sem eru afleiðing af ónákvæmri framkvæmd verðtryggingarinnar."
Höfundur er vélaverkfræðingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2009 | 23:01
Hvað er greiðsluverkfall? Hvað þýðir slíkt?
1. október boðar Hagsmunasamtök Heimilanna til aðgerða sem kallast greiðsluverkfall. Mig grunar að mjög margir hrista hausinn og hneykslast frekar á slíku og geta ekki ímyndað sér að taka þátt eingöngu vegna þess að þeir hinu sömu vilja ekki komast í bækur sem óreiðufólk gangvart gagnaskrá lánstrausts og síns banka.
Ég gaf mér nokkra mínútur og kynnti mér lauslega hvað ég þyrfti að gera til þess að geta sagst hafa tekið þátt í slíku og einnig hvað ávinnst með slíku. Svarið er einfalt. Verkfallið stendur frá 1. til 15 október, en einnig getur hver og einn haldið áfram eins lengi og hann vill og getur. Hinsvegar er gert ráð fyrir að verkfallið gæti stigmagnast eftir 15.október og því sem líður á tímann munu fleiri freistast til þess að taka þátt.
Alla reikninga sem við borgum vanalega um mánaðarmót til bankanna, fjármálastofnanna og hins opinbera verða ekki greiddir fyrr en 16.október eða síðar og þeir sem treysta sér borga bara alls ekki. Tímamót verða þar sem öll kreditkort verða klippt í sundur. Allt sparifé verður tekið út og sett undir kodda.
En hvað vinnst með þessu, koma lánastofnanir ekki bara með að hlægja að þessum aðgerðum?
Það er kappsmál að á næstu mánuðum látum við heyra almennilega í okkur gangvart því kerfi og regluflóði sem verndar alla lánveitendur og heldur skuldurum í skuldafangelsi sem sjá ekki fyrir endann á greiðslum á sinni lífstíð. Þetta er aðgerð sem eflir réttlætisbaráttu heimilanna og heldur þeirri umræðu á lofti.
Af heimasíðu Hagsmunasamtak Heimilanna:
"
- Hvað er greiðsluverkfall? Í grunnin er það að leggja niður greiðslur á einhverju t.d. íbúðalánum. Greiðsluverkfall er skírskotun í verkfallsréttinn. Verið er að berjast fyrir réttlæti, betri kjörum og betri réttarstöðu lántakenda neytendalána.
- Hverjum er greiðsluverkfallið beint gegn? Greiðsluverkfallinu er í þessu tilfelli beint gegn lánastofnunum þ.e. lánastofnanir eru fyrstu aðilarnir sem finna fyrir greiðsluverkfallinu. Það skal þó ekki farið í grafgötur með að sá aðili sem í þessu tilfelli er verið að þrýsta á er ríkisvaldið því það er eini aðilinn sem er í aðstöðu til að fara í almennar aðgerðir og breyta lögum. Lánastofnanir hafa hinsvegar mikil áhrif innan stjórnkerfisins eins og við höfum orðið vör við.
- Hver er tilgangurinn með greiðsluverkfallinu? Tilgangurinn er að knýja ríkisvaldið og lánastofnanir að samningaborðinu til að semja um kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna.
- Hverjar eru kröfur HH? Sjá kröfugerð um leiðréttingu verðtryggðra og gengistryggðra lána, kjara og réttarbætur vegna neytendalána á vefsíðu HH www.heimilin.is. Kröfur HH eru grunnurinn að kröfugerðinni en verkfallsstjórn hefur síðasta orðið með endanlega útfærslu kröfugerðarinnar.
- Hverjir eru þátttakendur í greiðsluverkfalli? Allir sem skulda lánastofnunum (ath. að greiðsluverkfall beinist ekki gegn öðrum atvinnurekstri).
- Geta þeir sem skulda ekki, stutt greiðsluverkfall? Já, í viðbót við andlegan stuðning er ein af mögulegum stuðningsaðgerðunum úttektir af bankareikningum.
- Er hægt að styðja greiðsluverkfall en standa samt í skilum á lánum? Já, með stuðningsaðgerðum eins og úttektum af bankareikningum, tilfærslu á launareikningum, draga greiðslur ofl. Þetta er nánar útlistað í aðgerðarlýsingum.
Ég hvet alla að taka þátt á einhvern hátt, þó svo að það sé ekki nema andlegan stuðning og bera út jákvæðan boðskap þessara aðgerða. Við megum ekki láta bugast!
Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að n.k 17. september verður opinn fundur í Iðnó og á 800bar á Selfossi.
Hér er tilkynningin:
"Kæru félagsmenn HH,
Um leið og við tilkynnum ykkur hér með um opinn fund í *Iðnó* um greiðsluverkfallið *17. sept. kl. 20:00* viljum við minna félagsmenn á að fylgjast með heimasíðu samtakanna www.heimilin.is Ýmislegt nýtt athyglisvert efni er á síðunni en hér neðar eru hlekkir á margt af því helsta.
Auk þess sem opinn fundur verður um greiðsluverkfallið í *Iðnó* verður einnig fundur á Selfossi á *800 Bar* á sama tíma. Ráðherrum (SJS og GM) hefur verið boðið á fundinn í Iðnó og alþingismönnum af Suðurlandi á fundinn á Selfossi.
Þess má geta að á fundinum í Iðnó verða meðal annarra Ólafur Arnarson og Björn Þorri Viktorsson í panel. Greiðsluverkfallsstjórnin mun sitja fyrir svörum og við vonum að ráðherrarnir mæti svo þeir geti svarað spurningum gesta (þeir hafa að svo stöddu ekki staðfest komu sína).
Greiðsluverkfallið okkar hefst svo 1. október og stendur til 15. október.
Spurt hefur verið hvort draga eigi greiðslur hvort sem um gjalddaga eða eindaga er að ræða og að sjálfsögðu á það við um bæði. Engar greiðslur af íbúðalánum og öðrum neyslulánum eru inntar af hendi þeirra sem taka þátt.
Einnig er mikilvægt að taka út inneignir af reikningum í ríkisbönkunum og á það við um alla sem vilja taka þátt hvort sem þeir eru með lán eða ekki. Við bendum á að stofna megi reikninga í öðrum bönkum (gott að gera fyrr en
seinna) eða leggja fé inn í bankahólf eða aðra örugga staði (fé í bankahólfum er ekki inn í veltu bankans). Sjá meira um þátttöku hér
http://www.heimilin.is/varnarthing/aegerdir-greidsluverkfall/467-greidsluverkfall-hvernig
Munið svo að hvetja vini og vandamenn til að *skrá sig í samtökin*. Það er tilvalið að nota Facebook og slíkar síður til að láta skoðanir sínar í ljós hvað þetta varðar.
Í september tók HH að sér að gera úttekt á greiðsluaðlögunar úrræðinu fyrir félagsmálaráðuneytið. Settur var saman rýnihópur fólks sem hefur nýtt sér þetta úrræði og eru niðurstöðurnar um margt athyglisverðar.
http://www.heimilin.is/varnarthing/about/workdocuments/kannanir-rannsoknir/64-nieurstoeeur/485-endurmat-a-greidsluadlogun
http://www.heimilin.is/varnarthing/about/workdocuments/kannanir-rannsoknir/64-nieurstoeeur/484-samantekt-rynihopi-greidsluadlogunar
Félagsmenn og aðrir eru duglegir að tjá skoðanir sínar í umsagnir við greinarnar á heimasíðunni. Þetta er mjög gott mál og við í stjórninni lesum þetta mikið til að sjá viðbrögð. Viljum hvetja alla til að segja sína skoðun en að sjálfsögðu að gæta hófs og nærgætni hvað varðar persónur og leikendur ef svo má að orði komast. Við fáum einnig mikið af pósti inn á heimilin@heimilin.is en þá er um að ræða beinar spurningar eða persónulegar frásagnir sem ekki eiga alltaf heima á heimasíðunni (við fáum stundum leyfi hjá fólki til að birta frásagnir þess af viðskiptum sínum við lánastofnanir ofl.).
Þennan póst má einnig lesa hér:
https://docs.google.com/Doc?docid=0Aa4EtwF1fnKKZGRudzJkZ25fMzdkc3hmd3djNA&hl=en
f.h. Stjórnar HH
Bestu kveðjur,
Ólafur Garðarsson
"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2009 | 00:43
Forseti ASÍ í stjórn félags á Tortola eyjum!
Þessi frétt á Visir.is batt endann á þvæluna. Það er spurning hvort nafnanefnd leyfi okkur að breyta nafninu á landinu okkar í Sikileyjar Norðursins.
Frétt af Visir.is segir; "
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sat í stjórn fjárfestingarfélags í Lúxemborg sem var stofnað í gegnum tvö skúffufélög í skattaparadísinni Tortola. Það var aldrei nein starfsemi í félaginu segir Gylfi sem segist ekki hafa vitað að Tortola hafi blandast inn í stofnun félagsins.
Félagið Motivation Investment Holding var stofnað í Lúxemborg árið 2000 og sá Kaupþing í Lúxemborg um að stofna félagið. Það gerði bankinn í gegnum tvö félög sem skráð eru á eyjunni Tortola.
Félögin heita Waverton Group Limited og Starbrook International Limited og komu margoft við sögu þegar Kaupþing stofnaði félög í Lúxemborg. Félögin lögðu svo fram 2,5 milljón íslenskra króna í stofnfé á hinu nýja félagi Motivation Investment Holding.
Endurskoðandi félagsins var Rothley Company Limited sem er skráður til heimilis í Road Town á Tortola. Endurskoðunarfyrirtækið og stofnfélögin hafa sama pósthólf á Bresku Jómfrúareyjunum.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var einn af fimm skráðum stjórnarmönnum Motivation Investment Holding.
Í samtali við fréttastofu segir hann að þegar félagið hafi verið stofnað hafi hann gegnt stöðu framkvæmdastjóra eignarhaldsfélags Alþýðubankans.
Félagið starfaði á innlendum fjárfestingarmarkaði og átti m.a. hluti í Hugviti. Til hafi staðið að bjóða starfsmönnum þess upp á kaupréttarsamninga og hafi sú leið verið valin að stofna félag í Lúxemborg þar sem Hugvit var með starfsmenn víða um Evrópu.
Staðsetningin hafi verið valin til að gæta jafnræðis meðal starfsmanna. Gylfi segist ekki hafa haft vitneskju um að eyjan Tortola hefði blandast inn í stofnun félagsins.
Aldrei hafi verið nein starfsemi í félaginu en það var leyst upp í febrúar á síðasta ári."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.9.2009 | 14:11
Höfum við efni á að leiðrétta höfuðstól íbúðarlána?
Margir fræðingar og stjórnmálamenn hafa tjáð okkur að staðan á ríkissjóði og í efnahagskerfinu sé þannig að það sé ekki til í dæminu að við getum á nokkurn hátt leiðrétt höfuðstól fasteignalána vegna þess að við eigum ekki fjármagn til þess. Án þess að dæma sjálfan mig sem fræðing á því sviði sem leyfir sér að fullyrða slíkt langar mig að spyrja einfaldari spurningu sem lítur meira að almennri skynsemi.
Þegar 9.600.000 verðtryggt íbúðarlán hjá Landsbankanum (tekið 15. júlí 2007), breyttist á 26 mánuðum í 12.690.000 eða hækkaði um 3.690.000 eða að meðaltali kr. 150.000 á mánuði. Hvaðan komu þessir seðlar til Landsbankans? Hvaðan kom þessi upphæð til þeirra? Að sjálfsögðu skrifaði ég undir lánið vitandi að verðtryggingin gæti gert þetta, eða látið það bólgna svona.
Hinsvegar spyr ég hvort þessi 3.690.000 sé fjárhæð sem bankinn eigi einhliða rétt á að eignast, sérstaklega þegar forsendur á lánasamningum sem ég skrifaði undir er brostinn.
Þá spyr ég þessa fræðinga hversu áþreifanlegir fjárhæðin 3.690.000 kr hækkunin er hjá þeim? Hversu mikla seðla þarf Landsbankinn til þess að leiðrétta þennan höfuðstól? Hversu réttlátt er það fyrir bókhald bankanna að eignfæra þessa 3.690.000 kr. skuld sem sín eign í bókhaldinu?
Á meðan ég spyr á svona einfaldan hátt má ég ekki gleyma því að Landsbankinn fékk á sama tíma hjá mér seðlagreiðslu (þessa 26 mánuði) kr. 52.000 að meðaltali fyrir greiðslu á vöxtum og höfuðstól. Það gerir kr. 1.325.000 af mínum skattskyldu launum samalagt þess 26 mánuði.
Í samantekt sjáum við að Landsbandbankinn hefur á þessum tíma náð að gera mig ábyrgan fyrir upphaflegum höfuðstól að kr. 9.600.000 (með veði í húsi sem hefur lækkað um 28% á 26 mánuðum) náð að eignfæra aukalega kr.3.690.000 á þessu tímabili og fengið einnig greiðslu í seðlum upp á 1.325.000 (samtals 14.615.000).
Ef ég væri Landsbankamegin væri ég skoti ánægður með viðskiptin.
Samtals hefur Landsbankinn (sem er ábyrgur fyrir Icesave klúðrinu) náð mér í þrældóm fyrir sig og að auki þarf ég að borga þeim fyrir að þræla fyrir þá og fæ í staðin að gista í húsinu mínu.
Þegar fræðingar og þingmenn segja mér síðan að Landsbankinn hafi ekki efni á að leiðrétta þessa fasteignskuld, spyr ég, hef ég efni á þeim aðstæðum sem ég er í?
Athugið að hér er um að ræða upphaflegt lán upp á 9.600.00 í fasteign sem var keypt fyrir kr.32.500.00. Þið getið rétt ímyndað ykkur ef lánið hefði verið hærra?
Réttlæti milli skuldara og lánveitanda er í þeirri stöðu á sá síðarnefndi heldur allri þjóðinni í þrældóm og þingmenn, einstaklingar sem við kusum til þess að gæta hagsmuna okkar mæta í þingsali og umræðuþætti og verja lánveitendur til hins ýtrasta.
Hvað verða heimilin í landinu að gera til þess að fá réttlætið til þess að sigra óréttlætið?
Það er fyrir slíkan málstað sem www.heimilin eru að berjast fyrir. Mig grunar að þú sem lest þetta sért ekki í ósvipuðum aðstæðum. Skráðu þig í dag, láttu í þér heyrast. www.heimilin.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
3.9.2009 | 23:03
Voru fasteigna- og bílalán í erlendri mynt ólögleg frá byrjun?
Í dag kom inn póstur til Hagsmunasamtaka Heimilanna (HH) frá virtum fræðimanni um málefni sem HH hefur verið með í rannsókn í langan tíma og fengið fjölmarga lögfræðinga og aðra til að leggja mat á. Um er að ræða lögmæti lána frá íslensku lánveitendum í erlendri mynt. Mikilvægi þess að við fáum úr skorið um lögmæti þessara skulda er mjög mikilvægt áður en skilanefndir binda enda á samningarviðræður milli erlendra kröfuhafa og gömlu bankanna.
Þessi grein sem hér birtist er sú sama og þú finnur á Heimasíðu okkar á www.heimilin.is og er hvatning til okkar allra til þess að leggja Hagsmunasamtökum heimilanna lið með því að gerast meðlimir en sú sjálfboðavinna sem þar á sér stað er frábær og er framlag Gunnars Tómassonar til þessa málefnis stórt skref.
p.s. Skrá sig í dag - www.heimilin.is
________________________________________________________________________
Gunnar Tómasson hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður AGS (IMF) til 25 ára sendi okkur(HH) þennan póst í dag (03.09.09). Helstu ráðamenn þjóðarinnar fengu afrit af póstinum.
"Ágæti formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.
Í viðhengi er samantekt um ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu varðandi gengistryggingu höfuðstóls lána í íslenzkum krónum.
Það er ótvírætt að slík gengistrygging brýtur gegn 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laganna, og varðar refsingu skv. 17. gr.
Skaði lántakenda af þessu broti lánastofnana veltur á hundruðum milljarða kr.
Frá þjóðhagslegu jafnt sem réttlætissjónarmiði ber því brýna nauðsyn til að fullt tillit sé tekið til skaðabótaskyldu viðkomandi lánastofnana áður en gengið er frá uppgjöri við erlenda og innlenda kröfuhafa gömlu bankanna.
Gunnar Tómasson
3. September 2009
Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001
1. Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 heimla íslenzkum lánastofnunum að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði." (14. gr.)*
2. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 segir svo um ákvæði 13. og 14. gr. frumvarpsins:
Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. (Ólafslög"). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið takmarkaðrar hylli.
Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi. Talið er að samningar með viðmiðun við gengisvístölu á grundvelli ákvæðisins í vaxtalögum séu mjög fáir. Í bráðabirgðaákvæði IV er kveðið á um hvernig farið skuli með innstæður og samninga af þessu tagi sem þegar eru í gildi.
3. Í septemberlok 2008 námu útistandandi gengistryggð útlán innlánsstofnana samtals 2.851.930 milljónum kr. Þar af 1.439.015 mkr til fyrirtækja, 1.057.842 mkr. til eignarhaldsfélaga og 271.384 mkr. til heimila.
4. Höfuðstóll umræddra lánasamninga er skilgreindur í íslenzkum krónum, og er því gengistrygging/binding þeirra við dagsgengi erlendra gjaldmiðla" skýrt brot á 13. gr. og 1. mgr. 14 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
5. Með gengistryggingu höfuðstóls í íslenzkum krónum hafa lánveitendur í raun velt eigin gengisáhættu yfir á viðskiptavini án heimilda í lögum, þótt eðli málsins samkvæmt sé ekki hægt að tengja einstök útlán á eignahlið efnahagsreiknings lánastofnana við einstaka liði á skuldahliðinni, hvort sem eru innlán í íslenzkum krónum eða erlendar lántökur lánveitenda.
6. Viðurlög við brotum á VI. kafla laga nr. 38/2001 (gr. 13-16) eru skilgreind í VII. kafla sem hér segir:
VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
18. gr. Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur"
Bloggar | Breytt 5.9.2009 kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Júní 2023
- Júní 2020
- Mars 2018
- Desember 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Október 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Nóvember 2006
Bloggvinir
- godsamskipti
- gummisteingrims
- andres
- dofri
- sigmarg
- gattin
- agustolafur
- ellyarmanns
- emmgje
- finnurtg
- tommi
- hipporace
- arnheidurmagg
- formula
- baldvinj
- launafolk
- dullur
- gisgis
- eirikuro
- erla
- folkerfifl
- fridrikof
- ulfarsson
- gerdurpalma112
- gudni-is
- gullvagninn
- jarnskvisan
- id
- fun
- jamesblond
- jonthorolafsson
- juliusvalsson
- ludvikludviksson
- magnusmar
- marinogn
- maggimur
- hux
- rrs
- sigurdurkari
- siggisig
- sigurgeirorri
- sigurjons
- snorrima
- spurs
- vala
- thordisb
- tbs
- thrudur
- vitinn
Tenglar
Frábær myndbönd
- Frábært gamalt myndband frá Jeremy Clarkson um Ísland Nokkuð skemmtileg afþreying!
Hversu biluð erum við?
http://www.psychiatry24x7.com/
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 98449
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar