Í krónum talið hækkuðu erlend lán gríðarlega mikið á síðasta ári og greiðslubyrði þyngdist. Ástæðan er sú að krónan veiktist um 80% gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins á hins vegar ekki að miða við gengi krónunnar í dag við þessa yfirfærslu. Viðmiðunargengið verður nálægt gengi krónunnar á þeim tíma þegar myntkörfulánin voru tekin.
Unnið er að þessari lausn í félagsmálaráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur og viðskiptaráðuneyti Björgvins G. Sigurðssonar.
Gangi þetta eftir mun greiðslubyrði margra heimila léttast. Lánin lækka í krónum talið en íslenskir vextir eru hærri en víða erlendis. Ekki liggur fyrir hver kostnaður ríkissjóðs verður við þessa aðgerð.
Samhliða þessu er nú á lokastigi flutningur íbúðalána í viðskiptabönkunum til Íbúðalánasjóðs. Það mun ganga eftir á allra næstu vikum samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir að verið sé að ganga frá reglugerð um flutninginn í félagsmálaráðuneytinu.
Auk viðskiptabankanna þriggja geta sparisjóðir óskað eftir að íbúðalánasöfn þeirra verði yfirtekin.