Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Árni Páll,félags- og tryggingamálaráðherra vanhæfur til umfjöllunar á frumvarpi til laga.

Nú er á dagskrá þings frumvarp til laga sem getur haft jákvæð áhrif á jöfnuð á milli lántaka og lánveitanda. Frumvarpið snýst um að lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu. Krafa lánveitanda á hendur lántaka skal því falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, en meðflutningsmenn hennar eru úr sama flokki og hún, Borgarahreyfingunni og Framsóknarflokknum.

Þá stígur upp í pontu "virðulegi" ráðherra Árni Páll. Hann segir; "...ávinningurinn af því er hins vegar ekki borðleggjandi,“ segir Árni Páll. „Verði frumvarpið að lögum, eins og það liggur fyrir, er líklegt að óvissa lánveitenda aukist.

Þar með er félags- og tryggingamálaráðherra orðin talsmaður lánveitanda og ber höfuðið hátt gagnvart þeirra málstað. Við skulum einnig ekki gleyma því að Árni Páll Árnason er hluthafi í Byr en hlutur hans samkvæmt stofnfjáreign er 5,6 milljónir króna. Þetta kemur fram þegar rýnt er í upplýsingar um hagsmunatengsl þingmanna.

Ráðherrann er algjörlega úr takt við það sem þjóðin öskrar á, sem er réttlæti. Hvað hefur komið frá þessum manni?

Ég vona að Árni sjái að sér og lýsi sig vanhæfan í umfjöllun um málið.

Hér er góð orð um þetta frá góðum bloggara


Hverjir eiga að klára Icesave málið?

Væri það ekki klárt að gera þá aðila sem komu okkur í vandræði vegna Icesave væru þeir sömu sem kæmu okkur út úr því? Þá væri klárt að gera þá persónulega ábyrga fyrir þessum skuldum og settir í vinnu fyrir ríkisbankanna, með það markmið að koma okkur út úr því. Ef þeir klára það ekki eru þeir með persónulega ábyrgð og allar þeirra eignir settar upp í kröfur. Þegar sú aðgerð er afstaðin þá getum við athugað hvort almenningur þurfi að borga brúsann.

Ertu að dofna? Erum við að gleyma?

Nú finnst mér á almenningi að raddirnar séu aðeins að dofna. Ástæðan hjá flestum er eflaust sumarfrí og vonandi góðir tímar framundan með fjölskyldu og vinum. Þá verðum við líka að fá að gleyma okkur og hafa gaman af lífinu, ekki vera blogga og kvarta alla daga.

Hinsvegar erum við þannig stödd að við megum valla missa taktinn, akkúrat þegar verið er að undirrita samfélagssáttmála og Icesave á viðkvæmu stigi. Krónan er einnig nú í rusl stöðu samkvæmt alþjóðlegum matsfyrirtækjum og um bæinn skunda fígúrur sem ætla að gefa okkur einkunn eftir nokkrar vikur. Þessu sömu fígúrur gáfu okkur AAAAA+++++ korter fyrir hrun, svo á að taka gilt og viðurkenna úrskurð þessara matsfyrirtækja og þeirra innsýni í framtíðarhorfur gagnvart stöðu íslenska ríkisins. Enn einn brandarinn (svo við tölum ekki um SJÓVÁ og þeirra flotræfilsklúður)

Þá bendi ég á ræðu Þórðar B. Sigurðssonar sem hann hélt á opnum fundi Hagsmunasamtaka Heimilanna í gærkvöldi. Góð ræða enda Þórður búinn að gefa sig 110% í starfi sem formaður samtakanna.

Ræða á fundi Hagsmunasamtaka heimilanna um boðun greiðsluverkfalls

Flutt í Iðnó 23.6.2009

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Það var í nóvember 2008 sem ég setti á netið svohljóðandi undirskriftasöfnun: 

„Við undirrituð skorum hér með á stjórnvöld að hrinda nú þegar í framkvæmd öflugum mótvægisaðgerðum vegna þess alvarlega efnhagsvanda sem íslensk heimili standa nú frammi fyrir.

Við beinum sjónum okkar sérstaklega að húsnæðislánum landsmanna og sjáum ekki aðra leið færa en frekari aðkomu stjórnvalda.

Fjölmargir hafa nú þegar stigið fram fyrir skjöldu og lagt fram ýmsar tillögur að aðgerðum sem stjórnvöld geta gripið til vegna þessa mála. Sem dæmi má nefna að fella niður skuldir (innskot jún09: sem við kjósum þó frekar að tala um sem leiðréttingu) og að afnema eða frysta verðtryggingu. Eins hafa fleiri en ein útgáfa af tillögum um endurfjármögnun lána eða skuldbreytingu þeirra litið dagsins ljós.

Skorist stjórnvöld undan íhugum við að hætta að greiða af húsnæðislánum okkar frá og með 1. febrúar 2009."

Undanfari þess að ég stofnaði til þessarar undirskriftasöfnunar var gengishrun krónunnar, verðbólguskot, hrun fjármálakerfisins og gjaldþrot bankanna.  Það kann að hljóma undarlega í ljósi síðari atburða en engu að síður var yfirskrift áskorunarinnar ,,Sláum skjaldborg um heimilin". 

Þetta fangaði meðal annars athygli Ólafs Garðarssonar og úr varð að hann setti upp heimasíðuna heimilin.is og var undirskriftarsöfnunin færð þangað.

Ég var ekki lengur einn. Á næstu vikum kynntist ég fleirum sem blöskraði staða mála og aðgerðaleysi stjórnvalda og var reiðubúið að gera eitthvað í málunum. Það var brýnt að sameina strax krafta allra lánþega í þeim slag sem virtist vera í uppsiglingu og myndaður var undirbúningshópur um stofnun samtaka sem væri ætlað að berjast fyrir hagsmunum heimilanna í því efnahagslega fárviðri sem á var skollið af mannavöldum.  Undir áskorunina sem minnst var á hér að framan skrifuðu um 1500 manns.

Upphaflega ætluðum við Ólafur að afhenda ríkisstjórninni undirskriftalistann rétt fyrir 1. febrúar en þegar að því kom hafði sitjandi ríkisstjórn verið steypt af stóli í kraftir byltingar sem ég vil meina enn standi yfir.  Landið var sumsé orðið stjórnlaust og enginn til viðtöku undirskriftanna sem er kannski lýsandi fyrir það viðhorf sem mætir heimilunum í landinu þegar eitthvað bjátar á.  Við Ólafur ákváðum því að koma undirskriftunum til allra alþingismanna með rafrænum hætti og létum þar við sitja.

Hagsmunasamtök heimilanna voru formlega stofnuð þann 15. Janúar 2009 og eru því í dag rúmlega 5 mánaða gömul.  Skráðir félagsmenn eru nú um 2200 sem þýðir að frá stofnun samtakanna hafa um 14 einstaklingar skráð sig í þau á degi hverjum að meðaltali.  Auk þess eru um 3000 manns skráðir í hóp samtakanna á Facebook.

Þann 12. febrúar 2009 kynntu samtökin tillögur sínar um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar.  Þær eru byggðar á hugmyndum HH um:

Almennar aðgerðir og leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána, afnám verðtryggingar, að áhætta milli lánveitenda og lántakenda skuli jöfnuð, að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði og samfélagslega ábyrgð lánveitenda.

Þær aðgerðir sem við lögðum til voru í fyrsta lagi tafarlaus tímabundin stöðvun fjárnáma og nauðungaruppboð heimila. 

Í annan stað að húsnæðislán landsmanna yrðu leiðrétt með þeim hætti að boðið yrði upp á að gengistryggðum íbúðalánum yrði breytt í hefðbundin verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána.  Samhliða yrði sett 4% hámarksþak á verðbætur verðtryggðra lána frá og með 1. janúar 2008.  Þetta væri fyrsta skrefið í átt til afnáms verðtryggingar. 

Í þriðja lagi að Alþingi samþykkti lög um greiðsluaðlögun sem fælu í sér að einstaklingar sem ekki réðu lengur við greiðslur af sínum lánum, þrátt fyrir almennar leiðréttingar ættu kost á  að sækja um greiðsluaðlögun þar sem greiðslugeta viðkomandi yrði metin og viðeigandi ráðstafanir gerðar út frá greiðslugetu og greiðsluáætlunum.

Ávinningur af aðgerðum þessum væri margþættur.  Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta yrði afstýrt, stuðlað yrði gegn frekara hruni efnahagskerfisins með jákvæðum áhrifum á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins, líkur myndu aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins héldu áfram að snúast þar sem fólk myndi hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum, traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna myndi skapast á ný og síðast en ekki síst yrði hér þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar.

Frá því þessar tillögur voru fram settar hefur nokkuð vatn runnið til sjávar.  Búið er að setja tímabundið stopp á nauðungarsölur til og með 31. október 2009 og er það vel.  Einnig hafa verið sett lög um greiðsluaðlögun sem eru í áttina að því sem við sáum fyrir okkur en ganga þó engan vegin næglega langt. 

Það sem stendur þó upp úr er að því miður hefur ríkisstjórnin ákveðið að hunsa með öllu skynsamlegar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána sem hafa rokið upp úr öllu valdi á brostnum forsendum.  Í staðinn ætla stjórnvöld að þvinga fram ósæmandi skuldaviðurkenningu á umræddum okurlánum og innheimta þau af fullri hörku.  Slík framganga er riftun á gildandi samfélagssáttmála.

28-04-09

Afstaða stjórnvalda í málinu er með öllu óskiljanleg og ber þess merki að sérhagsmuni skuli taka fram yfir almenna.  Í því samhengi vekur sérstaka athygli að ekki skuli liggja fyrir tímasett áætlun um afnám verðtryggingar þegar formenn beggja stjórnarflokka eru yfirlýstir andstæðingar hennar.

Aðstæður eru nú með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að grípa til nauðvarnar til að knýja fram tafarlausar úrbætur, þjóðinni til heilla.

Satt best að segja átti ég aldrei von á því að til þessa myndi koma.  Ég kaus á hinn bóginn að treysta því í lengstu lög að stjórnvöld myndu átta sig á því að það væri í þeirra valdi að afstýra stórkostlegu tjóni og allsherjar upplausnarástandi í þjóðfélaginu sem ég hef áður varað við og vísað til sem fjárhagslegrar borgarastyrjaldar. 

Sú styrjöld er reyndar hafin fyrir margt löngu síðan, en áhrif hennar eru nú byrjuð að koma fram með víðtækari hætti en áður. Flestum er sjálfsagt ennþá í fersku minni Álftanesaðferðin, sem svo hefur verið nefnd, þegar maður sem misst hafði hús sitt afréð að rústa því með þungavinnuvél á sjálfan þjóðhátíðardaginn.

Þann sama dag var ég staddur með fjölskyldu minni í kærkomnu fríi í orlofshúsi Kennarasambandsins á Flúðum.  Sjónvarpið sýndi beint frá hátíðarathöfn á Austurvelli þar sem sjá mátti forsætisráðherra og forseta leggja blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, sjálfstæðisímynd þjóðarinnar.

En hvað felst í því sjálfstæði?  Jú, vissulega liggur beint við að skírskota til hins fullvalda lýðveldis, en spyrja má að því hvernig slíkt fullveldi var fengið.  Með þrælslund og undirlægjuhætti? Eða þurftu menn og konur að taka á honum stóra sínum og standa með sjálfu sér og gegn hvers kyns ofríki þegar á hólminn var komið?

Ef við samþykkjum hljóðalaust það óréttlæti sem felst í höfuðstólshækkun lána á grundvelli vafasamra vísitölu- og gengisbindinga erum við þá nokkuð annað en skuldaþrælar sem ekki þorum að rísa upp og berjast fyrir réttindum okkar?

Það er ljóst að þeir aðilar sem hafa haft því hlutverki að gegna í gegnum tíðina að standa vörð um hagsmuni launþega sitja orðið báðum megin við borðið.  Og satt best að segja grunar mig að verkalýðsforystan sjái hreinlega ekki hinn almenna launamann fyrir peningahrúgunni sem henni hefur verið falið að hlúa að fyrir lífeyrissjóðina. 

Herdís Dröfn Baldvinsdóttir hefur gert doktorsverkefni um tengsl og samgróna innviði íslenska fjármálageirans og verkalýðssamtaka. Í útdrætti segir meðal annars að sterk yfirráðastétt, eða elíta, ríki á landinu, og bindiafl hennar felist meðal annars í krosseignatengslum en einnig öðrum kross-yfirráðum, ef svo má að orði komast.

Meginniðurstaðan er sú að „með samstarfi við starfsfólk í einkalífeyrissjóðageiranum hafi verkalýðshreyfingin verið innlimuð í þessar ytri valdaformgerðir, með gríðarmiklu og flóknu neti samtengdra yfirráða á sviði einkalífs og fjármála. Það er megin þversögn verkalýðshreyfingarinnar: hún er orðin veikburða fyrir hönd meðlima sinna en sterk fyrir „ríkjandi yfirstétt".

Þó niðurstaða Dr. Herdísar sé sjokkerandi í sjálfu sér verður að viðurkennast að hún er allt að því fyrirsjáanleg. Því mætti jafnvel segja að það þyrfti engan kjarneðlisfræðing til að koma auga á samruna fjárvaldsins og forystu verkalýðshreyfingarinnar. Til dæmis má nefna að í mörgum tilfellum við útgreiðslu launa er launagreiðendum uppálagt að leggja verkalýðsfélagsgjöld starfsmanna beinustu leið inn á bankareikninga lífeyrissjóða. Það þarf því ekki að koma svo mjög á óvart að þann 1. maí síðastliðinn mátti sjá mann í kröfugöngu með skilti sem á stóð: „ASÍ er skúffufyrirtæki".

21760  

Ríkisstjórnin hefur upp á síðkastið unnið hörðum höndum að gerð „stöðugleikasáttmála" ásamt aðilum vinnumarkaðarins. HH tóku sér það bessaleyfi að senda öllum hlutaðeigandi aðilum okkar innlegg í þær viðræður sem við kusum að nefna samfélagssáttmáli Hagsmunasamtaka heimilanna. Það er skemmst frá því að segja að okkur var ekki boðið til sætis við „stóra borðið" í ár.

Í þessu samhengi hefur Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur ritað ágæta grein sem kallast „Hinar nýju stéttir - lánadrottnar og skuldarar". Í greininni kemur meðal annars fram að frá og með áttunda áratugnum hafi aðgangur að lánsfé stóraukist og í krafti þess hafi hefðbundin stéttabarátta milli launþega og atvinnurekanda mun minna vægi en áður. Þess í stað hafi orðið til nýjar stéttir eins og titill greinarinnar ber vitni um.

Með leyfi fundarstjóra langar mig að lesa nokkrur orð upp úr grein Ingólfs:  

„Það tók innan við þrjátíu ár að breyta aldagamalli stéttarskiptingu þjóðfélagsins úr því að vera á milli launþega og atvinnurekenda í það að vera á milli lánadrottna og skuldunauta. Hver einasti vinnandi maður skuldar lánastofnun sinni að meðaltali tvöfaldar til þrefaldar árstekjur sínar. Vaxtakjör skipta orðið meira máli en launakjör. Samningstaða gangvart lánadrottni skiptir meira máli en við vinnuveitanda og það sem gerir stöðuna sérstaklega erfiða er að það eru engin stéttarsamtök skuldara til, aðeins stéttarsamtök launþega.

Á Íslandi er óréttlætið í stéttskiptingu skuldunauta og lánadrottna ekki fólgið í því að stéttaskiptingin sé yfirhöfuð til, heldur er það fólgið í verðtryggingu lánsfjármagns. Það er gegn þessu óréttlæti sem almenningur er að berjast, óháð því hverjar tekjur hans eru og óháð því hvort hann á eitthvað af eignum eða ekki. Sá göfugi vilji ríkisstjórnarinnar að ætla að ræða málefni heimilanna í landinu við samtök atvinnulífsins eru því dæmd til þess að mistakast. En henni er kannski vorkunn því að við hvern á hún að tala? Það eru bara til heildarsamtök lánadrottna en engin heildarsamtök skuldunauta! Mín fátæklegu ráð til ríkisstjórnarinnar eru því einfaldlega þau að hlusta á fólkið í landinu og framkvæma svo vilja þess."

Það er ekki annað hægt en að taka heilshugar undir með Ingólfi í þessum efnum.  Þó leyfi ég mér að fullyrða að Hagsmunasamtök heimilanna séu í það minnsta vísir að lánþegasamtökum.  Við höfum alla vega hagað okkur þannig og tekið afgerandi stöðu sem málsvari lánþega á neytendasviði.  Sem slík erum við gjörsamlega búin að tala okkur blá í framan.  Því spyr ég ykkur fundarmenn að því nú hvort tími sé kominn til hertra aðgerða? 

Þó stjórnvöld reyni hvað þau geti til að telja almenningi trú um hið gagnstæða teljum við í stjórn HH fullljóst að á Íslandi ríki neyðarástand og höfum við lýst því yfir enda eru fjölmörg heimili hreinlega á efnahagslegri vonarvöl.  Í síðustu viku birti Arney Einarsdóttir grein í Morgunblaðinu þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt opinberum tölum Hagstofunnar sé vísitölufjölskyldan gjaldþrota.  Það er að hún sé að meðaltali rekin með tæplega tveggja milljón króna halla á ári.  Er ætlun stjórnvalda að endurreisa Ísland á þeim grundvelli? 

Nýlega gerðu samtökin könnun á meðal félagsmanna og fljótlega verða niðurstöður hennar kynntar með ítarlegum hætti. Ég vil þó fá að deila með ykkur nokkrum af þeim svörum sem okkur bárust við spurningunni: „Hefur þú og þín fjölskylda þurft að neita sér um einhverjar nauðsynjar síðustu mánuði? Ef já, vinsamlega nefndu það helsta":

  • Aðalega eru það börnin sem verða harðast úti. Getum ekki endurnýjað fatnað og skó.
  • Ég hef beðið með að leysa út lyf, frestað að gefa barnabarni afmælisgjöf og mætti ekki í fermingu nákomins ættingja.
  • Ef ég borga mestan part minna reikninga þá er ekkert eftir fyrir mat. Því þarf ég að velja á milli þess að borga reikninga eða svelta. Ég ákvað að svelta ekki.
  • Við erum ellilífeyrisþegar og það er upp til hópa fólk sem hefur það mjög skítt fjárhagslega en það hefur verið þannig árum saman.
  • Ég vildi búa á Íslandi með börnum mínum og maka en gat það ekki lengur og er fluttur úr landi.
  • Við höfum þurft að fá lánaðan pening fyrir mat.
  • Það er ekki komið að því þar sem lánið hefur verið í frystingu en nú er því lokið og því þyngist róðurinn all verulega.
  • Fatnað og fleira á börnin og okkur, læknisþjónustu, lyfjakaup og stundum mat.
  • Hollur matur á borð við grænmeti, speltpasta og fisk sést ekki á borðum lengur. Illa merkt innflutt erfðabreytt matvæli, pasta úr hvítu hveiti, niðursuðumatur með E-innihaldsrunum hefur tekið við. Ég vona að sjúkratryggingakerfi landsins geti tekið við fólki.
  • Ísskápurinn er oft tómur.
  • Við veitum okkur ekkert, förum ekki á bíó, kaupum ekki dagblöð eða tímarit, bara með RUV. Komst ekki á Akureyri í fermingaveislu hjá nánasta ættingja. Ætlum ekki í sumarfrí. Þetta er ömurlegt ástand. Alltaf einhverjir reikningar sem verða að bíða.
  • Tannviðgerðir á börnum okkar.
  • Nei það geri ég ekki, frekar hætti ég að borga.
  • Allt lífið gengur útá að ná endum saman og borga af þessum óréttlátu lánum sem eru ekkert annað en mannréttindabrot.

 

Róttækra aðgerða er þörf.  Ef ekkert verður gert til að snúa þessari þróun við verður skaðinn bara meiri en nauðsyn krefur og afleiðingarnar hörmulegar.  Mér þykir leitt að vera boðberi slíkra válegra tíðinda en það væri ábyrgðarlaust af mér að þegja þegar ég veit betur.

Þann 8. desember 2008, á svipuðum tíma og undirskriftasöfnunin Sláum skjaldborg um heimilin lifði góðu lífi í netheimum og fólk var í óða önn að lýsa því yfir að það íhugaði að hætta að greiða af húsnæðislánum sínum vegna aðgerðaleysis stjórnvalda, var haldinn mjög svo eftirminnilegur Borgarafundur í  Háskólabíói þar sem Ásta Rut Jónasdóttir og Vésteinn Gauti Hauksson voru meðal frummælenda. 

Í ræðu sinni gagnrýndi Ásta Rut stjórnvöld og forystu verkalýðshreyfingarinnar harðlega fyrir að standa vörð um verðtrygginguna þrátt fyrir augljósan forsendubrest lánasamninga. Jafnframt lýsti hún því yfir að engar raunhæfar lausnir væru í boði vegna efnahagsvanda heimilanna og að hún hefði ekki áhuga á lengra reipi heldur réttlæti og skynsemi. Eftir að hafa spurst fyrir um hvort forseti ASÍ væri hreinlega í réttum hagsmunasamtökum lauk hún ræðu sinni með því að veifa lyklunum að íbúð sinni og spurði: „Hvort er heildarhagsmunum betur borgið með því að frysta verðtrygginguna eða með því að fjöldi fólks skili inn lyklunum til lánastofnanna?"

Vésteinn Gauti hafði nokkrum dögum áður komið fram í Kastljósi og lýst því yfir að hann væri búinn að reikna það út að það borgaði sig fyrir hann að hætta að greiða af íbúðaláninu sínu.  Í kjölfarið yrði íbúðin seld á nauðungaruppoði.  Með því móti myndaðist veðlaus krafa sem hann væri reiðbúinn að greiða til að losna úr skuldafangelsinu.  Að teknu tilliti til allra þátta myndi þetta borga sig fyrir hann þegar upp væri staðið.  Þessi sjónarmið reifaði hann í ræðu sinni.

Það er ekki hægt að halda öðru fram en að við séum margbúin að vara stjórnvöld við en allri þolinmæði eru takmörk sett.

Í raun mætti segja margt sé líkt með greiðsluverkfalli og hefðbundnu verkfalli.  Mikilvægt er að hafa í huga að venjulega leggja menn ekki niður störf vegna þess að þeir ætli sér að hætta að vinna, nei menn fara í verkfall til að berjast fyrir bættum kjörum.  Þetta má algerlega yfirfæra á greiðsluverkfallið.  Ég veit til dæmis ekki um neinn sem vill hætta að borga af lánunum sínum eða hefur ekki áhuga á að standa við þær skuldbindingar sem viðkomandi stofnaði til í góðri trú.  Hins vegar veit ég um marga sem eru mjög ósáttir við þau lánakjör sem bjóðast á Íslandi um þessar mundir og framgöngu stjórnvalda í þeim málum.

Til að auka líkurnar á að hertar aðgerðir skili árangri er nauðsynlegt að skipulegga þær vel.  Því höfum við í stjórn HH stungið upp á því að skipuð verði fimm manna verkfallsstjórn sem í sitji tveir stjórnarmenn, tveir almennir félagsmenn og einn lögmaður.  Hlutverk verkfallsstjórnar verði að skipuleggja og sjá um framkvæmd verkfallsins.  Hlutverk lögmannsins verði m.a. að leita allra leiða til að takmarka tjón þátttakenda eins og frekast er kostur.  Hugsanlega verði ákveðið að boða verkfallið þegar nægilegur fjöldi hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í hertum aðgerðum með einum eða öðrum hætti.  Líkt og um hefðbundið verkfall væri að ræða yrði kröfugerð afhent ríkissáttasemjara við boðun greiðsluverkfalls og þess freistað að fá fá stjórnvöld að samningaborðinu.

En hvers vegna ætti nokkur maður að taka þátt í slíkum aðgerðum?  Þessari spurningu er erfitt að svara nema út frá eigin forsendum.  Ég er reiðubúinn að deila með ykkur hvers vegna ég myndi íhuga þátttöku. 

Í fyrsta lagi ber að nefna skálkaskjól þeirrar efnahagsóstjórnar sem hér hefur liðist, höfuðóvin íslenskrar alþýðu á efnahagslegum grundvelli, sjálfa verðtrygginguna sem verður að afnema með öllu.  Verðtryggingin er ekki bara óréttlát svikamylla heldur er hún einnig lögvarið arðrán þar sem eignir almennings eru með skipulögðum hætti færðar elítunni á silfurfati.  Að tengja höfuðstól skulda við verðbólgu er auk þess algerlega fráleitt og þjóðhagslega óhagkvæmt.  Þetta virðast flestar þjóðir heims skilja.

Í annan stað er óheimilt samkvæmt frumvarpi því sem varð að lögum um vexti og verðtryggingu að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Gengistryggð lán eru því sjálfsagt ólögmæt.  Það að íslensk stjórnvöld kusu engu að síður að leyfa slík neytendalán á sínum tíma er að öllum líkindum ámælisvert.

Í þriðja lagi eru forsendur all flestra lánasamninga brostnar þar sem í mörgum tilfellum hafði annar samningsaðilinn með atferli sínu bein áhrif á höfuðstól skuldarinnar til hækkunnar.  Ég er að tala um það hvernig bankarnir, eigendur þeirra og lykilstjórnendur, felldu gengi krónunnar með svo kröftugu handafli að gengistryggð lán tvö- til þrefalduðust og verðtryggð lán hækkuðu um fjórðung á um það bil ári.

Á endanum hlaut eitthvað að láta undan í þessum hamagangi og bankarnir fóru á hausinn hver á fætur öðrum.  Fyrstu viðbrögð stjórnvalda við þeirri krísu voru að tryggja innstæður á Íslandi umfram skyldu og bæta duglega í peningamarkaðssjóði til að koma til móts við tap þeirra sem höfðu verið svo ólánsamir að setja í þá fé.  Kostnaðurinn við þessar aðgerðir er að sögn á milli 800 og 900 milljarðar.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei lýst sig gegn þessum aðgerðum þó mönnum sýnist sjálfsagt sitthvað um þær.  Aftur á móti höfum við gert þá kröfu að öll sparnaðarform verði varin en ekki bara sum. 

Því hvers vegna er sparifé þess sem ákvað að binda það í fasteign ómerkilegra en sparifé þess sem ákvað fjárfesta í peningamarkaðssjóði?  Á meðan sumt spariféfé er varið upp í topp er annað gengisfellt eða brennt á verðbólgubáli. 

Til þess að bíta svo endanlega höfuðið af skömminni virðast stjórnvöld ætla að fjármagna nýtt bankakerfi með húsnæðisskuldum almennings.  Eða hvað?  Myndi norrænni velferðarstjórn detta slíkur ósómi til hugar?  Að kaupa lánin á hrakvirði úr þrotabúum gömlu bankanna og innheimta þau svo margfalt til baka af fullri hörku?  Það er enginn svo óforskammaður að gera nokkuð slíkt, eða hvað?

Góðir fundarmenn.

Að endingu þakka ég gott hljóð og minni á að án réttlætis verður enginn friður.

 


Æji...skiptir þetta ICESAVE okkur eitthvað?

Þetta var viðhorf sem ég var með fyrir nokkru. Þá lét ég mig hafa það og kynna mér málið betur. Úpps...þetta er hrikalegt. Þetta málefni skiptir mína kynslóð gríðarlega miklu hvað varðar lífsgæði á íslandi næstu 20-30 ár. Við erum á leiðinni að skrifa undir erlent lán....og á lélegum kjörum, við megum ekki skrifa undir þetta. Þetta málefni er það heitt fyrir okkur öll að við eigum rétt á því að heyra í beinni útsendingu allt sem heyrir undir túlkun á samninginum. Þegar að skuldadögum kemur má það ekki gerast að allur samningurinn detti í lögræðitúlkanir þannig að allt sjóði upp úr. Þannig væri best að í allir aðilar samningsins sitji almennar umræður um samninginn fyrir framan íslensku þjóðina í beinni útsendingu. Við eigum rétt á því.

Hér er góð ræða um samninginn frá Jóhannesi P.

http://besserwiss.com/blogg/r%C3%A6%C3%B0a-a-austurvelli-20-juni-2009/

 


"Nú skal höggva"; sagði bóndinn við Hólmatún - Ný bíómynd frumsýnd á næstunni

Jæja, nú er komið að því. Fólk er alveg búið að missa það. Þessi gjörningur er eitt flottasta listaverk sem ég hef séð í langan tíma, allavega miklu flottari gjörningur en sá sem var á listahátíð. Þessi maður er einfaldlega snillingur og kemst í dýrlingatölu á meðal þjóðarinnar. Það sem var best var að grafa bílinn niður....að hluta til....þannig að afturendinn stendur upp úr. Þvílík snilld.

Það sem ég hef hinsvegar grunar af að mun fleiri i hugsa það sama, en þora ekki að framkvæma. Sem betur fer slasaðist engin við gerð þessa skúlptúrs.

Allavega mun ég mæta á frumsýningu myndarinnar!


mbl.is Eyðilagði íbúðarhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vellur skíturinn út um allt...og við þegjum...það er allt í lagi!

Ríkissaksóknari gerði óvart mistök og tafði rannsókn á máli þar sem sonur hans hafði hagsmuni þannig að sonur hans hagnaðist á þeim mistökum. Það er allt í lagi. Fyrrverandi lykilstarfsmenn (hvað sem það þýðir) fengu 50 milljarða niðurfellda gagnvart sínum lánum hjá Kaupthing. Það er allt í lagi. Gunnar Birgisson bæjarstjóri Kópavogs mokaði verkefnum undir fyrirtæki í eigu hans sjálfs- og fjölskyldu upp á tæpar 100 milljónir. Það er allt í lagi. Fasteignamat ríkisins hækkar fasteignamat fasteigna þrátt fyrir fall á fasteignaverði er mjög eðlilegt. Það er allt í lagi. Sigurjón Þ. Árnason fékk Kúlulán upp á 70 milljónir á 3,5% vöxtum, fyrsta afborgun 2028. Það er allt í lagi.

Að leiðrétta verðtryggð íbúðarlán, leiðrétta höfuðstól og að afturreikna íbúðarlán í erlendri mynt aftur í lántökutímann sjálfan og framreikna er algjörlega ekki hægt. Það er nefnilega ekki í lagi.

Að berjast fyrir því að skjóta skjaldborg um heimilin var allt í lagi......abragadabra.....ekki í lagi.

Þetta er einfaldlega ekki í lagi!

....framhald síðar.


Hamingjan felst í ferlinu en ekki útkomunni segir Eva Joly

Heimildarþáttur um líf og störf Evu Joly var sýndur á Rúv fyrir skömmu. Þar fengum við að sjá mannlegu hlið þessarar merkilegu konu. Ég hjó eftir því að hún sagði að nautnin og hamingjan í lífinu séu fólgin því þeim skrefum sem við tökum í átt að markmiðum  en ekki með því að klára eða ljúka við það markmið sem fyrir mann er sett. Þetta keyrir þessa kjarnakonu áfram í sinni vinnu og ber ég mikla virðingu fyrir þeim sem hafa þessa skoðun á hamingju og fyllingu í lífinu. Þannig deili ég þessari skoðun með henni en lærði að meta fyrst eftir að ég las bókina Flow: The Psychology of Optimal Experience eftir bandaríska rússan Mihaly Csikszentmihalyi. Þessi bók var kennd í sálfræði  í þeim háskóla sem ég var í í USA. Ég er fullviss um að Eva Joly sé einstaklega heil í sínum skoðunum um málefnum tengdum spillingu og hvítflibba glæpum. Ég hef trú á að þessi kona geti hjálpað okkur. 

Á sama hátt held ég að ákvarðanir og vinna að hálfu stjórnvalda séu vanhugsuð á mörgum vígstöðvum og  ákvarðanir teknar án ábyrgðar vegna kunnáttuleysi. Hvernig stendur á því að við leyfum manni í þeirri persónulegu stöðu sem hann er í til þess að gegna embætti ríkissaksóknara. Hvar erum við stödd? Treystum við Jóhönnu og Steingrími til þess að gæta að hagsmunum heimilanna okkar?


 


Þeir sem landinu stjórna eru að gleyma sér.

Hugsjón um betri kjör heimila í landinu hafa gleymst. Sá stjórnmálamaður sem eyðir sínum tíma í að huga að fólkinu í landinu er ekki til staðar. Vinnan einkennist að því að vinna og endurbæta stofnanir með hagfræði að leyðarljósi. Hver er markhópur þingheims, fyrir hverja eiga þeir að vinna?

Erla Karlsdóttir skrifar athugasemd við blogg hjá Maríó Njálssyni og segir:" Skv. viðtali við fjármálaráðherra í "Ísland í dag" á Stöð 2 þann 26. maí þá taldi hann upp ríkissjóð, íbúðalánasjóð, lífeyrissjóðina og sveitarfélögin sem helstu máttarstólpa þjóðfélagsins, þar eru heimilin í landinu eða þegnarnir ekki teknir með sem helstu grunnstoðir samfélagsins því miður!"

Þetta fékk mig til að hugsa um þá staðreynd að það er ekkert verið að gera fyrir heimilin. Endalaust er verið að vinna að því að gera okkur erfiðara og erfiðara að lifa góðu lífi. Með "hagkvæmari" lausnum frá þingheim er orðið erfiðara og erfiðara að reka heimilin í landinu. Margt fólk hugsar til flutnings úr landi. Því er mjög líklegt að þegar sala fasteigna fer aftur í gang munu margir selja og flytja erlendis.

Jóhanna Sigurðardóttir tók það skýrt fram að meirihluti á ennþá meiri eignir en skuldir, sem betur fer. En að geta látið þetta út úr sér er ekki í lagi. Ég fullyrði að 95% heimila eiga í miklum vandræðum að láta enda ná saman. Hvað hefur hækkað að undanförnu? Íbúðarlánin (höfuðstóll og afborganir), öll önnur lán t.d. bílalán, bensín, matur, tryggingar, skólamatur, frístundarklúbbar barnanna, nánast hver einasti liður í fastakostnaði hefur hækkað gríðarlega. Hvað hefur lækkað? Laun (hvert einasta fyrirtæki hafa beygt starfsfólk sig undir launalækkanir...þeir sem samþykkja ekki slíkt eru látnir fara), verðmæti íbúðar, afföll af bílum er gríðarlegt.

Hvað er síðan á dagskrá þings á næstunni?

(ps. kíkið á þessi orð Jóhönnu) http://www.althingi.is/johanna/greinar/safn/000017.shtml

 Endilega kíkið á samfélagssáttmála Hagsmunasamtaka heimilanna.

 

 Dagskrá alþingis næstu daga.

08.06.2009
08:15 Fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd
08:30 Efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd
09:00 Fundur í utanríkismálanefnd
09:15 Fundur í umhverfisnefnd
15:00 Þingfundur
09.06.2009
08:30 Fundur í allsherjarnefnd
08:30 Fundur í félags- og tryggingamálanefnd
12:00 Fundur í fjárlaganefnd
13:30 Þingfundur
10.06.2009
13:30 Þingfundur
11.06.2009
10:30 Þingfundur

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvaða samtök eða stjórnmálaflokkur hefur lagt vinnu í slíkan samfélagssáttmála?

Hagsmunasamtök Heimilanna er öflug samtök, mönnuð konum og körlum úr öllum stéttum samfélagsins. Síðustu vikur hafa samtökin unnið hörðum höndum að samfélagssáttmála. Þar hafa heiðarlegt vinnandi fólk með metnað lagt bæði dag sem nótt að setja saman raunhæfan sáttmála. Ekki hefur slíkt komið fram frá nokkrum hóp til þessa, hvað þá frá stjórnvöldum.

 Eftirfarandi sáttmála er hægt að nálgast á www.heimilin.is

 

Markmið og kröfur til nýs samfélagssáttmála

Markmið
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna telur ljóst að alger forsendubrestur sé kominn upp í veðlánum
heimila, bæði hvað varðar verð‐ og gengistryggð lán, sem vegur að fjárhagslegu sjálfstæði íslenskra heimila og grefur undan tilvist þeirra og framtíðarsýn.
Forsendur endurreisnar eru að leiðréttingar á stöðu mála eigi sér stað í sumar og í framhaldi sameinist hagsmunaaðilar og stjórnvöld um endurmótun og þróun kerfis með það að leiðarljósi að ábyrgð í lánveitingum verði framvegis deilt af meira jafnræði milli lánveitenda og lántaka. Jafnframt verði samtímis hafist handa við að snúa ógnvekjandi skuldastöðu heimilanna við.
Hagsmunasamtök heimilanna setja hér með fram tillögur að leiðum, sem innlegg í nýjan samfélagssáttmála, til að sátt náist aftur milli hins opinbera, fjármálakerfis, atvinnulífs og heimila hér á landi sem allra fyrst. Sú sátt sem hefur varað í fjölda mörg ár, um í raun meingallað fjármálakerfi, var rofin í undanfara bankahrunsins. Ljóst er að hvorki heimilin né atvinnulífið í landinu hafa lengur ráð á núverandi verðtryggðu lánakerfi, sem hlýtur að kalla á fullkomna endurskoðun kerfisins. Til að endurheimta og byggja aftur upp traust milli þessara aðila og koma á nýjum samfélagssáttmála telur stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna nauðsynlegt að vinna að eftirfarandi markmiðum og aðgerðum:


• Meginmarkmið er að efla trú landsmanna á grunnstoðir samfélagsins í kjölfar hrunsins og byggja upp von um sanngjörn og uppbyggileg skilyrði fyrir fjölskyldur hér á landi til framtíðar og koma þar með í veg fyrir upplausn og umfangsmikinn landflótta.

• Leiðrétta stöðu gengis‐ og verðtryggðra neytendalána strax í sumar.

• Leitað verði allra leiða til að skapa eins mörgum og hægt er fjárhagslegar forsendur til að halda
húsnæði sínu með því að laga til langs tíma greiðslubyrði að greiðslugetu, án þess að lengja stöðugt í lánum

• Endurvinna kaupmátt heimilanna með því að draga markvisst úr skuldsetningu þeirra með skýrri
sameiginlegri stefnumörkun hins opinbera, samtaka neytenda, launþega og atvinnulífs. Forðast ber
þensluhvetjandi úrræði og álögur sem munu hækka beint innlent verðlag og draga þannig úr
samkeppnishæfi framleiðslufyrirtækja, útflutningsgreina og ferðaþjónustufyrirtækja.

• Afnema tengingu neysluverðsvísitölu við veðlán neytenda og gera lánakjör veðlána sambærileg og á Norðurlöndunum.

• Koma á virkum samkeppnismarkaði með íbúðarhúsnæði, bæði á eignar‐ og leigumarkaði.

• Tryggja að allir landsmenn, 18 ára og eldri, geti verið þátttakendur á húsnæðismarkaði eftir efnum, áherslum og aðstæðum.

• Endurskapa fjármálakerfið sem sanngjarnan bakhjarl heimila og atvinnulífs landsins, sem stenst
samanburð fjármálakerfa Norðurlandanna.

• Jafna ábyrgð lántakenda og lánveitenda við útlán, m.a. með því að takmarka veð við veðandlag,
takmarka kröfur um ábyrgðarmenn, afnema samkeppnishamlandi gjöld og kvaðir fjármálafyrirtækja.

• Snúa kredithagkerfinu í debethagkerfi með áherslu á frjálsan sparnað.

• Tryggja betri vernd og vitund neytenda um rétt og skyldur með eflingu málaflokksins.

• Yfirfara og endurskoða útreikninga og forsendur verðtryggingar og verðbreytinga á núverandi
lánasöfnum, fyrir 1.okt. nk.

• Endurskoða lög um greiðsluaðlögun, innheimtukostnað og fyrningarfrest fyrir 1.okt. nk., svo að
kynnt úrræði virki í reynd fyrir almenning, séu raunhæf úrræði og þannig að viðreisnar sé von eftir
þrot.

Bráðaaðgerðir ‐ tillaga HH að nauðsynlegum tafarlausum aðgerðum
Grunnkrafa er gerð um að ábyrgð og kostnaði sé jafnað milli lántakenda og lánveitenda með leiðréttingu veðlána, samkvæmt tillögum HH á fjárhagslegum skaða þeim sem hlotist hefur í aðdraganda og í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Samtökin hafna einhliða boðaðri leið stjórnvalda að deila kostnaði vegna efnahagshrunsins út frá skuldastöðu heimilanna eins og nú er gert með því að knýja fram skuldaviðurkenningu veðkrafna fjármálastofnana. Þessar veðkröfur sem um ræðir eru langt umfram þær skuldir sem upphaflega var stofnað til af samningsaðilum og þar með langt umfram upphaflega samninga og greiðsluáætlanir. Þær fela í raun í sér stórtæka eignaupptöku í eiginfjárhlut fjölskyldna í fasteignum, sparnaði og jafnvel ævilanga áskrift fjármálafyrirtækja að framtíðartekjum lántakenda. Samtökin hafna því einnig að hægt sé hægt að senda bakreikninga á verðtryggð lánasöfn heimilanna með beinum hækkunum á neysluverðsvísitölu. Heimilin eru ekki, og mega ekki vera, botnlaus sjálftökusjóður til að bæta fyrir tjón sem varð vegna óábyrgrar útlánastefnu fjármálastofnana og meingallaðrar efnahagsstjórnar stjórnvalda.
Gerð er krafa um að hrun efnahagskerfisins og þar með vandi heimilanna sé skilgreint sem þjóðhagslegt vandamál, sem beri að taka á með tilstilli sameiginlegra sjóða og taka tillit til í samningagerð við kröfuhafa, þar sem byrðum verði deilt í samræmi við tekjur.


• Ríkissjóður takmarki ábyrgðir sínar á skuldbindingum vegna fjármálastofnana við reglugerðir og
samþykktir. Jafnræðis verði gætt í úrræðum og lausnum gagnvart mismunandi eignarformum.

• Leiðrétting gengistryggðra veðlána. Boðið verði upp á að breyta gengistryggðum veðlánum
heimilanna í verðtryggð, sem miðist við gengi lántökudags. Lánið verði síðan uppreiknað miðað við
verðbætur frá og með sama tíma.

• Leiðrétting verðtryggðra veðlána. Verðbótaþáttur verðtryggðra veðlána heimilanna verði leiðréttur
aftur til 1.janúar 2008 og miðist þá við 4% verðbótaþak skv. hámarks þolmörkum
verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.

• Leiðrétting veðlána taki einnig til uppgjöra á veðlánum frá og með 1.janúar 2008, þar með talið upp og inngreiðslum á höfuðstóla og nauðasamningum.

• Tafarlaust verði sett á stofn sáttanefnd / gerðardómur í anda tillagna Talsmanns neytenda með það að markmiði að forða frekari eignabruna og frekari fjárhagshremmingum heimilanna með sem
skjótvirkustum hætti. Mikilvægt er að almenningur fái sem fyrst skýr jákvæð skilaboð um að
stjórnvöld kveði á um jöfnun ábyrðar milli lántakenda og lánveitenda, sem samtímis eflir traust milli
almennings, stjórnvalda og fjármálakerfisins og styrkir greiðsluvilja.

• Breyting á lögum um greiðsluaðlögun, skv. tillögum HH sem lagðar voru fyrir Alsherjanefnd Alþingis
(sjá vefsíðu www.heimilin.is). Meginefni tillagna HH voru að úrræðið gildi fyrir alla óháð
atvinnuformi. Jafnframt að úræðið taki strax á skuldum fólks en ekki verði farin leið sem má kalla
lengingu á hengingaról með tilsjónarmanni.

• Breyting á lögum um innheimtulög. Krafa HH er að lágmarks neytendavernd komi fram í þessum
lögum og reglugerð sem þeim fylgir. Setja þarf % þak á innheimtukostnað t.d. 20% á skuldir innan
við 50.000 kr. Koma þarf í veg fyrir göt í lögum, sem gera slyngum innheimtulögfræðingum kleift að
nýta sér í innheimtuaðgerðum sínum gagnvart heimilum.

• Breyting á lögum um fyrningu kröfuréttinda. Krafa HH er að fyrning fyrir einstaklinga sé 5 ár og
alfarið sé komið í veg fyrir að hægt sé að endurnýja fyrndar kröfur með nokkrum hætti.

 

Viðsnúningur ‐ tillaga HH að aðgerðum til viðsnúnings á skuldastöðu heimilanna

Grunnkrafan er að stjórnsýslan í samvinnu við fulltrúa neytenda og verkalýðshreyfinguna setji fram
markvissa og tímasetta áætlun um leiðir til að minnka skuldastöðu heimilanna. Árið 1995 voru
heildarskuldir 125% af ráðstöfunartekjum og höfðu hækkað í 221% af ráðstöfunartekjum við ársbyrjun 2008 og um 280% við árslok 2008. Á sama tíma hefur skuldastaða heimila hinna Norðurlandanna farið lækkandi.

• Neytendastofnun verði stofnuð að norrænni fyrirmynd og fjármögnuð af ríkinu. Þar verði öll svið
neytendamála sameinuð og efld stórlega. Meginmarkmið er að snúa ofan af sí hækkandi
skuldsetningu heimilanna með breytingum á samkeppnisumhverfi helstu útgjaldaþátta heimilanna,
breytingum á fjármögnun veðlána, aukinni upplýsingagjöf um réttindi , skyldur og efla almenna
meðvitund um fjármál heimila og einstaklinga með það að markmiði að hvetja til debetneyslu og
frjáls sparnaðar.

• Tafarlaust verði sett á nefnd / gerðardómur sem yfirfari reiknireglur og útfærslur á útreikningi
verðbóta út frá neysluverðsvísitölu. Reikniaðferðir fjármálastofnana verði sannreyndar. Komi fram
misbrestur á útreikningi lántakendum í hag verði tafarlaust sett fram tímasett áætlun um
leiðréttingu.

• Tafarlaust verði sett fram tímasett áætlun um afnám verðtryggingar og að kjör á veðlánum neytenda verði sambærileg kjörum Norðurlanda. Fram að afnámi verði bæði sett þak á óverðtryggð breytileg veðlán og á verðbætur verðtryggðra veðlána.

• Samkeppnishamlandi gjöld við veðlán verði tafarlaust afnumin. Öll gjöld við afgreiðslu lána
endurspegli raunkostnað og verði föst upphæð, óháð upphæð láns.

• Kvaðir fjármálastofnana um umfang viðskipta verði bannaðar.

• Jafna ber ábyrgð lántakenda og lánveitenda við ný veðútlán, með því að lögboðið verði að veð skuli ávallt takmarkast við veðandlag.

• Breytingar á lögum um ábyrgðarmenn, þar sem óheimilt verði að krefjast ábyrgðarmanna við veðlán.

• Skattaumhverfi verði breytt þannig heimilin og menntun verði varin í víðasta skilningi. Koma verður í veg fyrir beina fjárhagslega hvatningu kerfisins til skilnaða og undanskota frá sköttum.

Í skattaáherslum séu innbyggðir hvatar til að stofna til heimila / fjölskyldna, þar sem sérstaklega er
tekið tillit til barnafjölskyldna. Heimiluð verði nýting persónuafsláttar innan kjarnafjölskyldna, þeas.
milli foreldra og ungmenna á framfærslu foreldra sinna. Vaxta‐ og húsaleigubætur komi til afsláttar
á tekjuskatti vegna kaupagreiðslna eða leigugjalds á lögheimili. Hvatt verði til sí‐ og
endurmenntunar með skattaafslætti á útlögðum kostnaði vegna náms og vegna faglegrar
símenntunar. Mótuð verði valfrjáls sparnaðarleið fyrir ungt fólk til fasteignakaupa sem veiti afslátt af
tekjuskatti, sbr. BSU kerfi Norðmanna.

Efnahagslegt jafnvægi til framtíðar ‐ tillögur HH


Grunnkrafan er að slegin verði raunverulegri skjaldborg um heimili landsins og að lausnir í dag skapi ekki augljós ný vandamál til framtíðar, ss. undirliggjandi verðbólguþrýsting vegna yfirþyrmandi persónubundinna skulda heimila og atvinnulífs.
Lágmarka ber umfang þrotaúrræða með fyrirbyggjandi aðgerðum til að skjóta styrkari stoðum undir
atvinnustig og þar með greiðslugetu og greiðsluvilja, sem munu skila sér í minni undanskotum. Það mun einnig styrkja fjárhagslega stöðu ríkis og sveitarfélaga.

• Lækka verður stýrivexti, lánskostnað og auka almenna lánafyrirgreiðslu tafarlaust til að forða enn
frekari þrengingum atvinnulífsins, til að forða frekari útbreiðslu atvinnuleysis.

• Íbúðalánasjóður verður að taka þátt í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir með boði á
endurfjármögnun fasteignaveðlána og óverðtryggðum lánum.

• Fjölga ber möguleikum á búsetu‐ og eignarformum heimila til samræmis lausnum á
Norðurlöndunum. Ef lánshlutfall verður lækkað sbr. tillögur um takmörkun veðs við veðandlag er
ljóst að eftirspurn eftir leiguhúsnæði mun aukast verulega. Ennfremur þarf að stuðla að meiri
samkeppni á milli eignar‐ og leiguforma til að framkalla eðlilegri verðmyndun á fasteignamarkaði.

• Skattaumhverfi verði endurskoðað og endurmetið til jöfnunar og jákvæðrar stýringar til samræmis
við norrænt fjölþrepa skattaumhverfi.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Reykjavík 5. júní 2009


Höfundur

Haraldur Haraldsson
Haraldur Haraldsson

Höfundur er Markaðsfræðingur/ Sálfræði frá Middle Tennessee State Univeristy (mtsu.edu).

Fæddur í Reykjavík 1971 og ólst upp í Garðabæ. Giftur Bergdísi Eysteinsdóttur sérkennslukennara. Eigum eina dóttur, Birtu Björk Haraldsdóttur fædd 2001.

Nærist á því að vera í kringum gott fólk og hef skýr lífsgildi um heiðarleika, kærleika.

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband