13.4.2009 | 10:46
Loksins, við verðum að standa saman!
Þetta erindi frá Hagsmunasamtökum Heimilanna segir allt sem segja þarf. Aðgerðir hingað til hafa einkennst að skammtímalausunum en alvöru lausnir til lengri tíma hafa verið kveðnar í kútinn. Margar lausnir eru nú þegar tilbúnar sem gerir það að verkum að heimilin geti fengið að sjá ljós í myrkrinu, þar sem hagsmunum lántaka og lánveitanda eru hafðar í fyrirrúmi. Kæri lesandi, ég hvet þig til þess að leggja Hagsmunum Heimilanna lið með því að sett þitt nafn á stuðningslista á www.heimilin.is VIÐ VERÐUM AÐ STANDA SAMAN!!!
Hér er erindið frá samtökunum í heild sinni af www.heimilin.is
Það glittir bara í löngutöng- Brauðmolum kastað til lýðsins
- Samkomulag án aðkomu lántakenda er marklaust
- Krafa um sanngjarna skiptingu byrða
- Vörn fyrir öll sparnaðarform, ekki bara sum
- Mesta eignaupptaka Íslandssögunnar í sjónmáli
- Lýst eftir betri lánakjörum ekki lengingu á því sama
- Bankakerfið fellur, ef gjaldþrotaleiðin verður farin
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeirri ákvörðun stjórnvalda og fjármálafyrirtækja að sniðganga með öllu sanngjarnar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra fasteignalána. Að sama skapi mótmæla samtökin þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem liggja til grundvallar samkomulagi stjórnvalda og fjármálafyrirtækja. Í fréttatilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu má lesa að ráðuneytið og lánveitendur hafi gert með sér samkomulag um að tryggja greiðslujöfnun gengistryggðra fasteignaveðlána einstaklinga. Hagsmunasamtök heimilanna vekja sérstaka athygli á að ekkert samráð virðist hafa verið haft við neytendur vegna málsins. Slíkt er með öllu óásættanlegt og ber merki um einstakan valdhroka og einbeittan brotavilja gagnvart þjóð sem er ætlað að bera mjög þungar byrðar á næstu árum. Svona samkomulag er marklaust án aðkomu allra hagsmunaaðila.
Sanngjörn skipti
Í ræðu á Austurvelli þann 17. janúar 2009 sagði núverandi viðskiptaráðherra: Fjölmörg heimili og fyrirtæki eiga eftir að ganga í gegnum erfiða og þungbæra fjárhagslega endurskipulagningu. Ríkið þarf að skera niður og hækka skatta. Þetta eru ekki skemmtileg verkefni. Það er hins vegar ekkert sem fyrir liggur sem er óviðráðanlegt. Því fer raunar fjarri. Byrðarnar verða þungar um tíma en ef þeim er skipt á sanngjarnan hátt þá verða þær engum óbærilegar.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt það til að lánveitendur og lántakendur skipti með sér þeim kostnaði sem til hefur fallið vegna efnahagskreppunnar. Með því að velja greiðslujöfnun og hafna almennri leiðréttingu hafa stjórnvöld eingöngu ákveðið að lengja í hengingarólinni. Heimilin eiga að halda áfram að setja stærstan hluta tekna sinna inn í greiðslur af lánum. Þau skulu blóðmjólkuð. Þegar því er lokið, munu lánastofnanir geta gengið að fasteignum heimilanna. Samtökin óttast að næsta skref stjórnvalda verði að gera lánastofnunum auðveldara að stofna eignarhaldsfélög sem taka við íbúðum eftir nauðungarsölu, í þeim tilgangi að leigja út íbúðir til að hámarka arð af eignanáminu.
Að mati ríkisstjórnarinnar er þetta ábyrg leið þar sem hún bæði kemur til móts við þarfir lántaka og hefur þann augljósa kost að hún stefnir ekki nýja íslenska fjármálakerfinu í hættu, segir viðskiptaráðherra um málið í frétt sem birt var á Vísi þann 9. apríl 2009. http://visir.is/article/20090409/FRETTIR01/274442683
Hagsmunasamtök heimilanna sjá sig knúin til að vara við slíkum þankagangi. Þessar aðgerðir eru fyrst og fremst miðaðar að þörfum lánveitenda, enda lántakendur ekki spurðir álits. Samtökin telja knýjandi þörf fyrir róttækari aðgerðir til að sporna við keðjuverkandi, neikvæðum áhrifum kreppunnar. Greiðslujöfnun íbúðalána er eins og að setja plástur á fótbrot. Samtökin spyrja hvort það sé forsvaranlegt að stefna íslenskum heimilum í hættu á kostnað hins nýja íslenska fjármálakerfis, sem virðist grunsamlega líkt því sem fyrir var. Er það virkilega ætlun stjórnvalda að fjármagna uppbyggingu bankakerfisins með fasteignum heimilanna og tekjum þeirra um langa framtíð?
Krafa um réttlæti og jafnræði
Þarfir lántakenda snúast ekki síst um réttlæti og að jafnræðis sé gætt. Fram hefur komið, að með setningu neyðarlaganna hafi innstæður verið tryggðar umfram það sem bar lögum samkvæmt. Einnig að komið var til móts við þá sem áttu sparifé sem tapaðist í peningamarkaðssjóðum. Spyrja má um kostnað í því samhengi (800 milljarðar hafa verið tilgreindir). Með þessu móti var gert upp á milli sparnaðarleiða, þar sem þeir sem settu sparifé sitt í fasteign, hlutabréf og lífeyrissjóði horfa á það ýmist brenna upp á verðbólgubáli eða vegna eignartaps tengt hruni bankanna. Samtökunum finnst einkennilegt að taka eina eða tvær sparnaðarleiðir út úr og veita þeim vernd umfram aðrar leiðir. Minna má á að ráðgjöf banka í húsnæðismálum síðustu árin snerist í miklu mæli um að vísa lántakendum í áhættusamar lánveitingar í formi gengistryggðra lána á þeirri forsendu að gengið væri stöðugt. Jafnvel var vísað í hagspár greiningadeilda þessara sömu banka sem ekki bara höfðu birt kolrangar spár, heldur einnig spár sem gátu ekki staðist í ljósi vitneskju sem síðar hefur komið fram. Ekki er hægt að túlka þessar spár í dag á annan hátt en afbökun á staðreyndum eða blekkingar. Sem afleiðing af því stóðust verðbólguforsendur við lántöku ekki. Þetta var allt vegna þess að bankarnir, eigendur þeirra og stjórnendur höfðu, viljandi eða þvingaðir, tekið stöðu gegn krónunni og stuðluðu með því að hækkun höfuðstóls lána, bæði gengis- og verðtryggðra.
Með samkomulagi viðskiptaráðuneytisins og fjármálafyrirtækja er ábyrgð lánastofnana á því ástandi sem hér hefur skapast í raun að engu gerð og svik þeirra við heimili landsmanna samþykkt af ríkisstjórninni. Hagsmunasamtök heimilanna líta á þennan gjörning sem stríðsyfirlýsingu lánastofnana og stjórnvalda gegn heimilum. Engar leiðréttingar eiga að fara fram, enginn tekur raunverulega ábyrgð. Svona aðgerðir hefðu líklegast gert mikið gagn fyrir ári eða þess vegna átta mánuðum, en í dag virka þær sem salt í sárið. Úrræðin eru lausnir fyrir lánastofnanir, ekki lántakendur. Hvergi er gerð tilraun til að létta á vaxtabyrði, draga til baka hækkanir sem lánastofnanir bera ábyrgð á eða leiðrétta vegna ranglegra tekinna verðbóta. Lausnirnar eru ekki til að létta heildargreiðslubyrði, heldur til að þyngja þær. Hvergi er gerð hin minnsta tilraun til að bera fram réttlæti í orði eða verki. Allar lausnirnar lúta að því að styrkja skuldahlekkina, auka byrðarnar.
Sáttarhöndin ekki sjáanleg
Samtökin vilja rifja upp orð Gylfa Magnússonar, núverandi viðskiptaráðherra, í ræðu á Austurvelli þann 17. janúar 2009:
Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu. Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttahönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar enn þá. Það glittir bara í löngutöng.
Það er dapurleg staðreynd að einmitt sá aðili sem viðhafði ofangreind orð skuli nú standa í fylkingarbrjósti þeirra afla sem hafa í hyggju að standa fyrir mestu eignaupptöku Íslandssögunnar. Eignaupptöku, sem á að standa undir hinu "nýja" fjármálakerfi, eftir að það "gamla" hafði sólundað öllu fé sem því var treyst fyrir og er í raun fullkomlega gjaldþrota og gott betur. Við höfum séð löngutöngina, en hvar er sáttarhöndin?
Heimilin njóti betri kjara
Hagsmunasamtök heimilanna skora á lánastofnanir að bjóða ný lán með hagkvæmari kjörum en þeim sem fyrir eru. Samtökin skora jafnframt á lánastofnanir að taka án undanbragða á sig að minnsta kosti jafnar byrðar varðandi verðtryggð lán á móti lántakendum afturvirkt til 1. janúar 2008. Svigrúmið er fyrir hendi hjá flestum aðilum. Samkvæmt upplýsingum frá skilanefndum gömlu bankanna er ætlunin að leggja nýjum afsprengjum þeirra til ríflega 3.300 milljarða "afslátt" af innlendum lánasöfnum. Hvers konar siðferði er að taka við miklum afslætti frá lánadrottnum en ætla ekki að skila honum til lántakenda? Samkvæmt dómi hæstaréttar bar verktaka að láta viðskiptavin njóta afsláttar sem hann fékk hjá birga. Ætli þessi dómur sé fordæmisgefandi?
Komi lánastofnanir ekki til móts við heimilin í landinu með því að létta á skuldabyrði þeirra og heildargreiðslubyrði, þá sjá samtökin ekki að það þjóni nokkrum tilgangi að fólk haldi áfram að borga af skuldum sínum. Það er val hvers og eins hvaða ákvörðun hann tekur, en samtökin spyrja: Hve marga þarf, sem hætta að greiða, til að opna augu fjármálafyrirtækja fyrir því að þau þurfa líka að færa fórnir?
Brauðmolar ríkisstjórnarinnar
Frá hruni bankanna hafa þær tvær ríkisstjórnir, sem með völd hafa farið, vissulega gert ýmislegt í þeim tilgangi að létta undir með heimilunum. Samkvæmt bestu manna útreikningum eru áhrif þessara aðgerða minniháttar og kostnaður ríkissjóðs nær enginn. Vissulega leggjast öll útgjöld ríkissjóðs á endanum á skattgreiðendur, en fyrr má nú vera sparðatíningur. Á sama tíma og allt að 600 milljarðar eru settir í að verja innistæður og yfir 200 milljörðum er bætt í peningasjóði, er 2 milljörðum beint til heimilanna í formi aukinna vaxtabóta. Nú til að bíta skömmina úr nálinni, þá leggur meirihluti efnahags- og skattanefndar til að meðan vaxtabætur til tekjulágra hækki um allt að 30%, þá hækki vaxtabætur hjóna, sem hafa milli 8 og 12 milljónir í árstekjum, um allt að 500%. Við höfum séð brauðmolana, en bíðum eftir raunverulegum úrræðum.
Málssókn til varnar heimilunum
Innan Hagsmunasamtaka heimilanna hefur myndast hópur fólks sem er að undirbúa málssókn til varnar heimilum þess. Samtökin hvetja þá sem vilja taka þátt í slíkri málssókn eða leggja henni lið að setja sig í samband við samtökin með því að senda tölvupóst á heimilin@heimilin.is. Hagsmunasamtök heimilanna vilja standa vörð um þau sjálfsögðu mannréttindi að eiga öruggt skjól gegn ofríki fjármálastofnana. Í því sambandi minna samtökin á eftirfarandi greinar úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna:4. grein.Engan mann skal hneppa í þrældóm né nauðungarvinnu. Þrælahald og þrælaverslun, hverju nafni sem nefnist, skulu bönnuð.17. grein. 1. Hverjum manni skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra.2. Engan má eftir geðþótta svipta eign sinni.25. grein.1. Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.2. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, skilgetin sem óskilgetin, skulu njóta sömu félagsverndar.
Breytinga þörf, ef ekki á illa að fara
Verði ekki breyting á stefnu stjórnvalda og viðhorfi fjármálastofnana, mun sverfa til stáls. Hagsmunasamtök heimilanna munu ekki sitja hjá hljóðalaust og horfa á þjóðfélagið sökkva niður í botnlaust skuldafenið. Samtökin munu ekki sætta sig við að fasteignir heimilanna og fyrirtækin í landinu verði notuð til að fjármagna bankakerfið. Samtökin krefjast þess að stjórnvöld taki tillit til heimilanna og atvinnulífsins. Samtökin krefjast þess að fjármálafyrirtæki komi til móts við heimilin og atvinnulífið með raunhæfum úrræðum fyrir lántakendur, en ekki leiðum sem henta bara fjármálafyrirtækjunum. Meðan bankakerfið sogar til sín allt laust fjármagn blæðir heimilunum og atvinnulífinu út. Það endar með ekki nema á einn veg. Bankakerfið fer aftur í þrot.
Það eru hagsmunir allra, að fjármálafyrirtækin axli ábyrgð á sínum hluta af hruni hagkerfisins. Það er ekki gert með því að ganga fram af hörku gegn heimilunum og atvinnulífinu. Það er ekki gert með því að bjóða bara lausnir sem soga sífellt stærri hlut af ráðstöfunartekjum heimila og atvinnulífs til sína. Nei, það er gert með því að koma til móts við heimilin og atvinnulífið og færa niður vexti og höfuðstól lána. Og ekki síður með því að færa niður ósanngjarnar og ofteknar verðbætur frá 1. janúar 2008 og leiðrétta höfuðstól gengistryggðra lána miðað við sömu dagsetningu. Hagsmunasamtök heimilanna
Páskadag, 12. apríl 2009
Málsókn til varnar heimilum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Júní 2023
- Júní 2020
- Mars 2018
- Desember 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Október 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Nóvember 2006
Bloggvinir
- godsamskipti
- gummisteingrims
- andres
- dofri
- sigmarg
- gattin
- agustolafur
- ellyarmanns
- emmgje
- finnurtg
- tommi
- hipporace
- arnheidurmagg
- formula
- baldvinj
- launafolk
- dullur
- gisgis
- eirikuro
- erla
- folkerfifl
- fridrikof
- ulfarsson
- gerdurpalma112
- gudni-is
- gullvagninn
- jarnskvisan
- id
- fun
- jamesblond
- jonthorolafsson
- juliusvalsson
- ludvikludviksson
- magnusmar
- marinogn
- maggimur
- hux
- rrs
- sigurdurkari
- siggisig
- sigurgeirorri
- sigurjons
- snorrima
- spurs
- vala
- thordisb
- tbs
- thrudur
- vitinn
Tenglar
Frábær myndbönd
- Frábært gamalt myndband frá Jeremy Clarkson um Ísland Nokkuð skemmtileg afþreying!
Hversu biluð erum við?
http://www.psychiatry24x7.com/
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Allt er þetta gott og gilt, en vandinn er bara sá að það er enginn til að bera byrðarnar nema við sjálf (heimilin í landinu) af því að lánastofnanirnar eru allar í opinberri eigu -- þ.e. í okkar eigin eigu. Skuldaniðurfelling lendir því óhjákvæmilega á þjóðinni, því að fjármálafyrirtækin eru ekki óháðar stofnanir, heldur okkar eigin eign. Því spyrja þeir sem skulda lítið hvaða réttlæti felist í því að þeir taki á sig, rétt sí svona, byrðar þeirra sem skulda mikið. Auðvitað þarf að veita þeim aðstoð sem eru komnir í þrot, þannig að fólk lendi ekki á götunni, en það eru því miður engar lausnir til sem láta vandann einfaldlega hverfa.
GH (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 11:04
Frábær grein Haraldur og Hagsmunasamtök heimilanna virðast vera einu samtökin í landinu sem eru að vinna að hagsmunum venjulegs fólks. Ekki er að sjá að launþegahreifingin hirði þar um að koma til varnar, enda er hún meira og minna flækt í spillingarvef flokksræðisins hér á landi. Hann er einungis hægt að rjúfa með óháðu stjórnlagaþingi sem setur okkur nýjar grundvallar leikreglur sem miða að því að afnema flokksræði og endurvekja völd og virðingu Alþingis. Við þurfum nýtt lýðveldi!
GH hér að ofan hjakkar í því fari sem núverandi stjórnvöld hafa markað; því er ranglega haldið fram að skuldaleiðrétting muni með einhverjum hætti lenda á ríkinu eða þjóðinni. Það er hreint bull, enda átti með setningu neyðarlaganna að fá skuldaafskriftir frá ERLENDUM KRÖFUHÖFUM en rukka síðan þjóðina um fullar endurgreiðslur. Búa þannig til eigið fé í hinum nýju ríkisbönkum á kostnað heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og einkavæða svo allt dótið sem fyrst aftur (þá væntanlega í þágu SjálfstæðisFLokksins og Framsóknar eins og síðast) - eða átti það nú að vera í þágu Samspillingarinnar líka???
Það er ótrúlegt að fólk skuli bara éta upp bullið frá núverandi valdhöfum sem hafa snúist gegn einstaklingum og fyrirtækjum í landinu með fráleitri ósanngirni og óbilgirni. Hér skulu skuldarar kyngja ranglætinu eins og hverjum öðrum ógeðisdrykk, við fáum að vísu lengri tíma til þess, en niður skal ALLT ógeðið spillingaröflunum til dýrðar!
Heimilisfaðir (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 12:06
Já, Haraldur, góð grein
Heimilisfaðir, greinin er yfirlýsing Hagsmunasamstaka heimilanna og varð hún til í samvinnu stjórnarmanna (aðal- og varamanna). Við erum, eins og sést á greininni, gjörsamlega búin að fá nóg og teljum út í hött að hinir brotlegu fái að dæma í eigin sök.
Marinó G. Njálsson, 13.4.2009 kl. 12:24
Já ég hjakka í þessu sama fari, því að sú er nú reyndin. Ef útistandandi skuldir lífeyrissjóða, Íbúðarlánasjóðs og bankanna verða færðar niður með einu pennastriki er augljóst að tekjur þeirra munu skerðast sem því nemur. Hvernig ætti annað að vera? Það er hægt að deila endalaust um það hvort það sé réttlátt að skuldarar beri allan kostnað af hækkun lána vegna verðtryggingar, en að reyna að slá því ryki í augu fólks að hægt sé að lækka skuldir þess án þess að þeir sem eigi skuldirnar (sem eru nú um stundir ríkissjóður og lífeyrissjóðir) verði fyrir engum skaða er þvílík hringavitleysa að ég hef aldrei heyrt neina slíka fyrr eða síðar.
GH (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 15:16
Skuldir okkar hafa hækkað um ýmist 20% (verðtryggð lán), eða 100% (erlend lán) sl. ár og EKKI SÉNS að fólk sjái fyrir sér þann þrældóm að fá BARA greiðsluaðlögun. Við verðum að fá fyrst LEIÐRÉTTINGU á prósentutengdri hækkun lánanna og svo þarf greiðsluaðlögun fyrir þá sem hitt dugar ekki fyrir.
Helga , 13.4.2009 kl. 18:16
Samkvæmt efnahagsyfirliti Lífeyrissjóða sem Seðlabankinn birtir var hrein eign lífeyrissjóðanna í lok febrúar s.l. 1.591 milljarðar. Þar af voru 168 milljarðar sjóðfélagalán.
20% af 168 eru 33,6.
33,6 / 1.591 = 0,02
Ef lífeyrissjóðirnir myndu slá 20% af höfuðstól sjóðfélagalána myndu eignir sjóðanna rýrna um 34 milljarða eða 2%.
Þórður Björn Sigurðsson, 13.4.2009 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.