Leita í fréttum mbl.is

Hvað sameinar okkur? Smá pæling :-)

Ég geri ráð fyrir að margir, ef ekki flestir hafa í gærkvöldi farið að sofa. Sum okkar fóru snemma að sofa, sum seint og sumir alveg ómögulegir, sváfu illa eða lítið sem ekkert. Við vöknum, flest allir með hárið allstaðar og hvergi, augun vel krumpuð og andlitið hálf afmyndað af hvíld næturinnar. Þá byrjar dagurinn. Manneskjan er háð vananum, eða eins og Englendingurinn segir, “creatures of habits”, einskonar vanafíklar. Okkar þægindahringir einkennist af hegðun, aðgerðum sem við sjálf höfum myndað og þykir hvað best.

Þannig eru morgnarnir t.d. mjög sérstakur tími. Ég til dæmis vakna við vekjaraklukku sem er stillt á útvarp, ligg yfirleitt í smá tíma og hlusta á fréttir eða einhverjar yfirgengilegar vitsmunalegar umræður, druslast síðan fram úr með hálflokuð augun, rekst á tvo til þrjá veggi áður en ég hitti á salernisherbergið og horfi á salernið í hyllingum. Það eiga sér stað vissar venjur sem illa er hægt að útiloka og í raun bráðnauðsynlegar til að dagurinn geti á annað borð hafist. Siðan er tannburstinn stunginn inn í kjaftinn og djöflast fram og til baka, enn eru augun lokuð. Síðan fer köld gusu af vatni úr lófa í andlitið og þá fer allt að gerast. Raksápan á sinn stað, skafan tekur andlitshárin og allir vöðvar andlitsins eru rétt að hefja sig á flug. Þá tekur við böðun.

Þá byrjar morgunballið, og þar kemur vanafíkillinn sterkur inn. Hitastigið stillt, togað í þennan takka, þessum ýtt inn, sturtuhausinn mundaður í vissa átt. Take off. Vatnið flæðir og nær velgju svona eftir 30-60 sek. Ef hinsvegar eitthvað af þessu klikkar, getum maður lent í því að fá kalda gusu af vatni yfir allan líkamann, mjög óvænt sem getur jafnvel valdið hjartaáfalli og viðeigandi andköfum. Eins gott að þetta sé rétt gert. Þá fer hand-sturtuhausinn í gang og hann gengur hingað og þangað eftir líkamanum eins og vanafíkillinn er vanur. Frá vestri til austurs, austur til suðurs, norður, aftur vel suður og staldrar þar við. Þarna í suðri er síðan skolað eins og enginn væri morgundagurinn. Allt er þetta aðgerðir sem vanafíkillinn hefur frumsamið og telur vera nauðsynlegt til þess að hefja daginn. Þurrkunn eftir sturtu er síðan fáránlega skipulögð með svipuðum hreyfingum og hand-sturtan.

Aðgerðir sem hér á eftir fylgja eru síðan eflaust mjög mismunandi, allskonar krem, lyktareyðir og lyfjagjöf. En allt eftir vissri formúlu. Þetta ásamt mörgu öðru í daglegum aðgerðum eigum við öll sameiginlegt.

Einnig eiga sem flest það sameiginlegt að mæta til þeirrar vinnu sem við höfum valið. Þar gerum við allt þar sem af okkur er ætlast og meira til þannig að allir séu ánægðir. Tilgangurinn er að afla sér tekna til að geta átt fyrir afborgunum lána, mat og öllu hinu draslinu sem fylgir. Þannig er það stórmerkilegt að við eigum okkur nokkur mismunandi líf, innan þess lífs sem við lifum. Svona einskonar málsgreinar inna hvers kafla sem lifa sjálfstæðu lífi. Í vinnu er ýmislegt af okkur ætlað. Sumir eiga alltaf að vera brosandi þó svo að það fari á skjön við innri líðan. Sumir eiga koma með ógurlega vitsmunalegar spurningar og ofurmannlegar lausnir. Svona hitt og þetta.

En eigendur fyrirtækisins sem þú vinnur fyrir ætlast alltaf til að fjármagnið sem í fyrirtækið er sett, vaxi eins og lauf að vori, og vonar að sprettan verði óvenju góð, ár eftir ár. Fyrirtækið verður þannig að vökva og oft á tíðum er það mikil kúnst að vökva rétt, ekki of lítið og ekki of mikið. Þá hljóta allir að vera sammála því að við sem launþegar sitjum þannig á trjágreinum fyrirtækisins og vonumst til þess að ræturnar séu sterkar og stöðugar. Ef það tekst er það kallað góður rekstur eða ásættanlegur hagnaður, afurðir meiri tekna en kostnaðar. Þetta viljum við.

Eigendur sem og þeir sem að fyrirtækinu standa. Allir sem einn. Hvernig getum við hjálpað til við að vökva tréð þannig að ræturnar verði heilbrigðar og þoli áföll vel? Þetta er spurning sem við vanafíklarnir verðum að spyrja okkur. Ekki endilega hugsa um náungann hinumegin við þilið eða vegginn, heldur þú sjálf/ur.

Eftir vinnudaginn hefst svo annað líf, sem undir flestum kringumstæðum er það líf sem við lifum fyrir. Þar umgöngumst við fólkið sem elskar okkur hvað mest og við elskum á móti. Fólkið í þessu lífi er það fólk sem kemur til með að hjálpa okkur þegar okkur líður illa og gleðst með okkur á hamingju tímum. Fólkið sem við viljum að sé hluti af okkar lífi. Við dánarbeð er það þetta fólk sem heldur í hönd okkar, en ekki svartur ruslapoki fullur að bréfmiðum, eins og t.d hlutabréf eða peningaseðlar. Það heldur ekki í hönd okkar. Það er fólkið okkar sem skiptir öllu máli.

Þetta eigum við nú öll, vanafíklarnir sameiginlegt, hvort sem við erum forsetar, forstjórar, stjórnarformenn, lagerstarfsmenn, sölumenn, þjónustufulltrúar og hvað sem starfheitið er. Við erum öll í sama bát. Okkur verður öllum mál að pissa, og þá þurfum við að fá að pissa.

Ef við lærum að virða umhverfið á þann hátt að við séum á sama bát, þá verður lífið aðeins einfaldara, í því flókna mynstri sem nútíminn geir kröfu til. Það skiptir máli að elska, læra að elska sjálfan sig og náungann. Síðasti hálfvitinn er ekki ennþá fæddur, elskum hann samt.

Stöndum saman og höfum gaman að því að vera vanafíklar, strjúkum hvoru öðru, tökum lífinu með stakri ró og höfum húmor fyrir öllu ruglinu sem er í kringum okkur.

Brosum.

p.s Gleymdir þú nokkuð að tannbursta í morgun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Haraldur Haraldsson
Haraldur Haraldsson

Höfundur er Markaðsfræðingur/ Sálfræði frá Middle Tennessee State Univeristy (mtsu.edu).

Fæddur í Reykjavík 1971 og ólst upp í Garðabæ. Giftur Bergdísi Eysteinsdóttur sérkennslukennara. Eigum eina dóttur, Birtu Björk Haraldsdóttur fædd 2001.

Nærist á því að vera í kringum gott fólk og hef skýr lífsgildi um heiðarleika, kærleika.

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband