24.6.2009 | 23:37
Ertu að dofna? Erum við að gleyma?
Nú finnst mér á almenningi að raddirnar séu aðeins að dofna. Ástæðan hjá flestum er eflaust sumarfrí og vonandi góðir tímar framundan með fjölskyldu og vinum. Þá verðum við líka að fá að gleyma okkur og hafa gaman af lífinu, ekki vera blogga og kvarta alla daga.
Hinsvegar erum við þannig stödd að við megum valla missa taktinn, akkúrat þegar verið er að undirrita samfélagssáttmála og Icesave á viðkvæmu stigi. Krónan er einnig nú í rusl stöðu samkvæmt alþjóðlegum matsfyrirtækjum og um bæinn skunda fígúrur sem ætla að gefa okkur einkunn eftir nokkrar vikur. Þessu sömu fígúrur gáfu okkur AAAAA+++++ korter fyrir hrun, svo á að taka gilt og viðurkenna úrskurð þessara matsfyrirtækja og þeirra innsýni í framtíðarhorfur gagnvart stöðu íslenska ríkisins. Enn einn brandarinn (svo við tölum ekki um SJÓVÁ og þeirra flotræfilsklúður)
Þá bendi ég á ræðu Þórðar B. Sigurðssonar sem hann hélt á opnum fundi Hagsmunasamtaka Heimilanna í gærkvöldi. Góð ræða enda Þórður búinn að gefa sig 110% í starfi sem formaður samtakanna.
Ræða á fundi Hagsmunasamtaka heimilanna um boðun greiðsluverkfalls
Flutt í Iðnó 23.6.2009
Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.
Það var í nóvember 2008 sem ég setti á netið svohljóðandi undirskriftasöfnun:
Við undirrituð skorum hér með á stjórnvöld að hrinda nú þegar í framkvæmd öflugum mótvægisaðgerðum vegna þess alvarlega efnhagsvanda sem íslensk heimili standa nú frammi fyrir.
Við beinum sjónum okkar sérstaklega að húsnæðislánum landsmanna og sjáum ekki aðra leið færa en frekari aðkomu stjórnvalda.
Fjölmargir hafa nú þegar stigið fram fyrir skjöldu og lagt fram ýmsar tillögur að aðgerðum sem stjórnvöld geta gripið til vegna þessa mála. Sem dæmi má nefna að fella niður skuldir (innskot jún09: sem við kjósum þó frekar að tala um sem leiðréttingu) og að afnema eða frysta verðtryggingu. Eins hafa fleiri en ein útgáfa af tillögum um endurfjármögnun lána eða skuldbreytingu þeirra litið dagsins ljós.
Skorist stjórnvöld undan íhugum við að hætta að greiða af húsnæðislánum okkar frá og með 1. febrúar 2009."
Undanfari þess að ég stofnaði til þessarar undirskriftasöfnunar var gengishrun krónunnar, verðbólguskot, hrun fjármálakerfisins og gjaldþrot bankanna. Það kann að hljóma undarlega í ljósi síðari atburða en engu að síður var yfirskrift áskorunarinnar ,,Sláum skjaldborg um heimilin".
Þetta fangaði meðal annars athygli Ólafs Garðarssonar og úr varð að hann setti upp heimasíðuna heimilin.is og var undirskriftarsöfnunin færð þangað.
Ég var ekki lengur einn. Á næstu vikum kynntist ég fleirum sem blöskraði staða mála og aðgerðaleysi stjórnvalda og var reiðubúið að gera eitthvað í málunum. Það var brýnt að sameina strax krafta allra lánþega í þeim slag sem virtist vera í uppsiglingu og myndaður var undirbúningshópur um stofnun samtaka sem væri ætlað að berjast fyrir hagsmunum heimilanna í því efnahagslega fárviðri sem á var skollið af mannavöldum. Undir áskorunina sem minnst var á hér að framan skrifuðu um 1500 manns.
Upphaflega ætluðum við Ólafur að afhenda ríkisstjórninni undirskriftalistann rétt fyrir 1. febrúar en þegar að því kom hafði sitjandi ríkisstjórn verið steypt af stóli í kraftir byltingar sem ég vil meina enn standi yfir. Landið var sumsé orðið stjórnlaust og enginn til viðtöku undirskriftanna sem er kannski lýsandi fyrir það viðhorf sem mætir heimilunum í landinu þegar eitthvað bjátar á. Við Ólafur ákváðum því að koma undirskriftunum til allra alþingismanna með rafrænum hætti og létum þar við sitja.
Hagsmunasamtök heimilanna voru formlega stofnuð þann 15. Janúar 2009 og eru því í dag rúmlega 5 mánaða gömul. Skráðir félagsmenn eru nú um 2200 sem þýðir að frá stofnun samtakanna hafa um 14 einstaklingar skráð sig í þau á degi hverjum að meðaltali. Auk þess eru um 3000 manns skráðir í hóp samtakanna á Facebook.
Þann 12. febrúar 2009 kynntu samtökin tillögur sínar um bráðaaðgerðir vegna efnahagskreppunnar. Þær eru byggðar á hugmyndum HH um:
Almennar aðgerðir og leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána, afnám verðtryggingar, að áhætta milli lánveitenda og lántakenda skuli jöfnuð, að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði og samfélagslega ábyrgð lánveitenda.
Þær aðgerðir sem við lögðum til voru í fyrsta lagi tafarlaus tímabundin stöðvun fjárnáma og nauðungaruppboð heimila.
Í annan stað að húsnæðislán landsmanna yrðu leiðrétt með þeim hætti að boðið yrði upp á að gengistryggðum íbúðalánum yrði breytt í hefðbundin verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána. Samhliða yrði sett 4% hámarksþak á verðbætur verðtryggðra lána frá og með 1. janúar 2008. Þetta væri fyrsta skrefið í átt til afnáms verðtryggingar.
Í þriðja lagi að Alþingi samþykkti lög um greiðsluaðlögun sem fælu í sér að einstaklingar sem ekki réðu lengur við greiðslur af sínum lánum, þrátt fyrir almennar leiðréttingar ættu kost á að sækja um greiðsluaðlögun þar sem greiðslugeta viðkomandi yrði metin og viðeigandi ráðstafanir gerðar út frá greiðslugetu og greiðsluáætlunum.
Ávinningur af aðgerðum þessum væri margþættur. Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta yrði afstýrt, stuðlað yrði gegn frekara hruni efnahagskerfisins með jákvæðum áhrifum á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins, líkur myndu aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins héldu áfram að snúast þar sem fólk myndi hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum, traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna myndi skapast á ný og síðast en ekki síst yrði hér þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar.
Frá því þessar tillögur voru fram settar hefur nokkuð vatn runnið til sjávar. Búið er að setja tímabundið stopp á nauðungarsölur til og með 31. október 2009 og er það vel. Einnig hafa verið sett lög um greiðsluaðlögun sem eru í áttina að því sem við sáum fyrir okkur en ganga þó engan vegin næglega langt.
Það sem stendur þó upp úr er að því miður hefur ríkisstjórnin ákveðið að hunsa með öllu skynsamlegar og hóflegar tillögur samtakanna um leiðréttingu gengis- og verðtryggðra lána sem hafa rokið upp úr öllu valdi á brostnum forsendum. Í staðinn ætla stjórnvöld að þvinga fram ósæmandi skuldaviðurkenningu á umræddum okurlánum og innheimta þau af fullri hörku. Slík framganga er riftun á gildandi samfélagssáttmála.
Afstaða stjórnvalda í málinu er með öllu óskiljanleg og ber þess merki að sérhagsmuni skuli taka fram yfir almenna. Í því samhengi vekur sérstaka athygli að ekki skuli liggja fyrir tímasett áætlun um afnám verðtryggingar þegar formenn beggja stjórnarflokka eru yfirlýstir andstæðingar hennar.
Aðstæður eru nú með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að grípa til nauðvarnar til að knýja fram tafarlausar úrbætur, þjóðinni til heilla.
Satt best að segja átti ég aldrei von á því að til þessa myndi koma. Ég kaus á hinn bóginn að treysta því í lengstu lög að stjórnvöld myndu átta sig á því að það væri í þeirra valdi að afstýra stórkostlegu tjóni og allsherjar upplausnarástandi í þjóðfélaginu sem ég hef áður varað við og vísað til sem fjárhagslegrar borgarastyrjaldar.
Sú styrjöld er reyndar hafin fyrir margt löngu síðan, en áhrif hennar eru nú byrjuð að koma fram með víðtækari hætti en áður. Flestum er sjálfsagt ennþá í fersku minni Álftanesaðferðin, sem svo hefur verið nefnd, þegar maður sem misst hafði hús sitt afréð að rústa því með þungavinnuvél á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Þann sama dag var ég staddur með fjölskyldu minni í kærkomnu fríi í orlofshúsi Kennarasambandsins á Flúðum. Sjónvarpið sýndi beint frá hátíðarathöfn á Austurvelli þar sem sjá mátti forsætisráðherra og forseta leggja blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar, sjálfstæðisímynd þjóðarinnar.
En hvað felst í því sjálfstæði? Jú, vissulega liggur beint við að skírskota til hins fullvalda lýðveldis, en spyrja má að því hvernig slíkt fullveldi var fengið. Með þrælslund og undirlægjuhætti? Eða þurftu menn og konur að taka á honum stóra sínum og standa með sjálfu sér og gegn hvers kyns ofríki þegar á hólminn var komið?
Ef við samþykkjum hljóðalaust það óréttlæti sem felst í höfuðstólshækkun lána á grundvelli vafasamra vísitölu- og gengisbindinga erum við þá nokkuð annað en skuldaþrælar sem ekki þorum að rísa upp og berjast fyrir réttindum okkar?
Það er ljóst að þeir aðilar sem hafa haft því hlutverki að gegna í gegnum tíðina að standa vörð um hagsmuni launþega sitja orðið báðum megin við borðið. Og satt best að segja grunar mig að verkalýðsforystan sjái hreinlega ekki hinn almenna launamann fyrir peningahrúgunni sem henni hefur verið falið að hlúa að fyrir lífeyrissjóðina.
Herdís Dröfn Baldvinsdóttir hefur gert doktorsverkefni um tengsl og samgróna innviði íslenska fjármálageirans og verkalýðssamtaka. Í útdrætti segir meðal annars að sterk yfirráðastétt, eða elíta, ríki á landinu, og bindiafl hennar felist meðal annars í krosseignatengslum en einnig öðrum kross-yfirráðum, ef svo má að orði komast.
Meginniðurstaðan er sú að með samstarfi við starfsfólk í einkalífeyrissjóðageiranum hafi verkalýðshreyfingin verið innlimuð í þessar ytri valdaformgerðir, með gríðarmiklu og flóknu neti samtengdra yfirráða á sviði einkalífs og fjármála. Það er megin þversögn verkalýðshreyfingarinnar: hún er orðin veikburða fyrir hönd meðlima sinna en sterk fyrir ríkjandi yfirstétt".
Þó niðurstaða Dr. Herdísar sé sjokkerandi í sjálfu sér verður að viðurkennast að hún er allt að því fyrirsjáanleg. Því mætti jafnvel segja að það þyrfti engan kjarneðlisfræðing til að koma auga á samruna fjárvaldsins og forystu verkalýðshreyfingarinnar. Til dæmis má nefna að í mörgum tilfellum við útgreiðslu launa er launagreiðendum uppálagt að leggja verkalýðsfélagsgjöld starfsmanna beinustu leið inn á bankareikninga lífeyrissjóða. Það þarf því ekki að koma svo mjög á óvart að þann 1. maí síðastliðinn mátti sjá mann í kröfugöngu með skilti sem á stóð: ASÍ er skúffufyrirtæki".
Ríkisstjórnin hefur upp á síðkastið unnið hörðum höndum að gerð stöðugleikasáttmála" ásamt aðilum vinnumarkaðarins. HH tóku sér það bessaleyfi að senda öllum hlutaðeigandi aðilum okkar innlegg í þær viðræður sem við kusum að nefna samfélagssáttmáli Hagsmunasamtaka heimilanna. Það er skemmst frá því að segja að okkur var ekki boðið til sætis við stóra borðið" í ár.
Í þessu samhengi hefur Ingólfur H. Ingólfsson félagsfræðingur ritað ágæta grein sem kallast Hinar nýju stéttir - lánadrottnar og skuldarar". Í greininni kemur meðal annars fram að frá og með áttunda áratugnum hafi aðgangur að lánsfé stóraukist og í krafti þess hafi hefðbundin stéttabarátta milli launþega og atvinnurekanda mun minna vægi en áður. Þess í stað hafi orðið til nýjar stéttir eins og titill greinarinnar ber vitni um.
Með leyfi fundarstjóra langar mig að lesa nokkrur orð upp úr grein Ingólfs:
Það tók innan við þrjátíu ár að breyta aldagamalli stéttarskiptingu þjóðfélagsins úr því að vera á milli launþega og atvinnurekenda í það að vera á milli lánadrottna og skuldunauta. Hver einasti vinnandi maður skuldar lánastofnun sinni að meðaltali tvöfaldar til þrefaldar árstekjur sínar. Vaxtakjör skipta orðið meira máli en launakjör. Samningstaða gangvart lánadrottni skiptir meira máli en við vinnuveitanda og það sem gerir stöðuna sérstaklega erfiða er að það eru engin stéttarsamtök skuldara til, aðeins stéttarsamtök launþega.
Á Íslandi er óréttlætið í stéttskiptingu skuldunauta og lánadrottna ekki fólgið í því að stéttaskiptingin sé yfirhöfuð til, heldur er það fólgið í verðtryggingu lánsfjármagns. Það er gegn þessu óréttlæti sem almenningur er að berjast, óháð því hverjar tekjur hans eru og óháð því hvort hann á eitthvað af eignum eða ekki. Sá göfugi vilji ríkisstjórnarinnar að ætla að ræða málefni heimilanna í landinu við samtök atvinnulífsins eru því dæmd til þess að mistakast. En henni er kannski vorkunn því að við hvern á hún að tala? Það eru bara til heildarsamtök lánadrottna en engin heildarsamtök skuldunauta! Mín fátæklegu ráð til ríkisstjórnarinnar eru því einfaldlega þau að hlusta á fólkið í landinu og framkvæma svo vilja þess."
Það er ekki annað hægt en að taka heilshugar undir með Ingólfi í þessum efnum. Þó leyfi ég mér að fullyrða að Hagsmunasamtök heimilanna séu í það minnsta vísir að lánþegasamtökum. Við höfum alla vega hagað okkur þannig og tekið afgerandi stöðu sem málsvari lánþega á neytendasviði. Sem slík erum við gjörsamlega búin að tala okkur blá í framan. Því spyr ég ykkur fundarmenn að því nú hvort tími sé kominn til hertra aðgerða?
Þó stjórnvöld reyni hvað þau geti til að telja almenningi trú um hið gagnstæða teljum við í stjórn HH fullljóst að á Íslandi ríki neyðarástand og höfum við lýst því yfir enda eru fjölmörg heimili hreinlega á efnahagslegri vonarvöl. Í síðustu viku birti Arney Einarsdóttir grein í Morgunblaðinu þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt opinberum tölum Hagstofunnar sé vísitölufjölskyldan gjaldþrota. Það er að hún sé að meðaltali rekin með tæplega tveggja milljón króna halla á ári. Er ætlun stjórnvalda að endurreisa Ísland á þeim grundvelli?
Nýlega gerðu samtökin könnun á meðal félagsmanna og fljótlega verða niðurstöður hennar kynntar með ítarlegum hætti. Ég vil þó fá að deila með ykkur nokkrum af þeim svörum sem okkur bárust við spurningunni: Hefur þú og þín fjölskylda þurft að neita sér um einhverjar nauðsynjar síðustu mánuði? Ef já, vinsamlega nefndu það helsta":
- Aðalega eru það börnin sem verða harðast úti. Getum ekki endurnýjað fatnað og skó.
- Ég hef beðið með að leysa út lyf, frestað að gefa barnabarni afmælisgjöf og mætti ekki í fermingu nákomins ættingja.
- Ef ég borga mestan part minna reikninga þá er ekkert eftir fyrir mat. Því þarf ég að velja á milli þess að borga reikninga eða svelta. Ég ákvað að svelta ekki.
- Við erum ellilífeyrisþegar og það er upp til hópa fólk sem hefur það mjög skítt fjárhagslega en það hefur verið þannig árum saman.
- Ég vildi búa á Íslandi með börnum mínum og maka en gat það ekki lengur og er fluttur úr landi.
- Við höfum þurft að fá lánaðan pening fyrir mat.
- Það er ekki komið að því þar sem lánið hefur verið í frystingu en nú er því lokið og því þyngist róðurinn all verulega.
- Fatnað og fleira á börnin og okkur, læknisþjónustu, lyfjakaup og stundum mat.
- Hollur matur á borð við grænmeti, speltpasta og fisk sést ekki á borðum lengur. Illa merkt innflutt erfðabreytt matvæli, pasta úr hvítu hveiti, niðursuðumatur með E-innihaldsrunum hefur tekið við. Ég vona að sjúkratryggingakerfi landsins geti tekið við fólki.
- Ísskápurinn er oft tómur.
- Við veitum okkur ekkert, förum ekki á bíó, kaupum ekki dagblöð eða tímarit, bara með RUV. Komst ekki á Akureyri í fermingaveislu hjá nánasta ættingja. Ætlum ekki í sumarfrí. Þetta er ömurlegt ástand. Alltaf einhverjir reikningar sem verða að bíða.
- Tannviðgerðir á börnum okkar.
- Nei það geri ég ekki, frekar hætti ég að borga.
- Allt lífið gengur útá að ná endum saman og borga af þessum óréttlátu lánum sem eru ekkert annað en mannréttindabrot.
Róttækra aðgerða er þörf. Ef ekkert verður gert til að snúa þessari þróun við verður skaðinn bara meiri en nauðsyn krefur og afleiðingarnar hörmulegar. Mér þykir leitt að vera boðberi slíkra válegra tíðinda en það væri ábyrgðarlaust af mér að þegja þegar ég veit betur.
Þann 8. desember 2008, á svipuðum tíma og undirskriftasöfnunin Sláum skjaldborg um heimilin lifði góðu lífi í netheimum og fólk var í óða önn að lýsa því yfir að það íhugaði að hætta að greiða af húsnæðislánum sínum vegna aðgerðaleysis stjórnvalda, var haldinn mjög svo eftirminnilegur Borgarafundur í Háskólabíói þar sem Ásta Rut Jónasdóttir og Vésteinn Gauti Hauksson voru meðal frummælenda.
Í ræðu sinni gagnrýndi Ásta Rut stjórnvöld og forystu verkalýðshreyfingarinnar harðlega fyrir að standa vörð um verðtrygginguna þrátt fyrir augljósan forsendubrest lánasamninga. Jafnframt lýsti hún því yfir að engar raunhæfar lausnir væru í boði vegna efnahagsvanda heimilanna og að hún hefði ekki áhuga á lengra reipi heldur réttlæti og skynsemi. Eftir að hafa spurst fyrir um hvort forseti ASÍ væri hreinlega í réttum hagsmunasamtökum lauk hún ræðu sinni með því að veifa lyklunum að íbúð sinni og spurði: Hvort er heildarhagsmunum betur borgið með því að frysta verðtrygginguna eða með því að fjöldi fólks skili inn lyklunum til lánastofnanna?"
Vésteinn Gauti hafði nokkrum dögum áður komið fram í Kastljósi og lýst því yfir að hann væri búinn að reikna það út að það borgaði sig fyrir hann að hætta að greiða af íbúðaláninu sínu. Í kjölfarið yrði íbúðin seld á nauðungaruppoði. Með því móti myndaðist veðlaus krafa sem hann væri reiðbúinn að greiða til að losna úr skuldafangelsinu. Að teknu tilliti til allra þátta myndi þetta borga sig fyrir hann þegar upp væri staðið. Þessi sjónarmið reifaði hann í ræðu sinni.
Það er ekki hægt að halda öðru fram en að við séum margbúin að vara stjórnvöld við en allri þolinmæði eru takmörk sett.
Í raun mætti segja margt sé líkt með greiðsluverkfalli og hefðbundnu verkfalli. Mikilvægt er að hafa í huga að venjulega leggja menn ekki niður störf vegna þess að þeir ætli sér að hætta að vinna, nei menn fara í verkfall til að berjast fyrir bættum kjörum. Þetta má algerlega yfirfæra á greiðsluverkfallið. Ég veit til dæmis ekki um neinn sem vill hætta að borga af lánunum sínum eða hefur ekki áhuga á að standa við þær skuldbindingar sem viðkomandi stofnaði til í góðri trú. Hins vegar veit ég um marga sem eru mjög ósáttir við þau lánakjör sem bjóðast á Íslandi um þessar mundir og framgöngu stjórnvalda í þeim málum.
Til að auka líkurnar á að hertar aðgerðir skili árangri er nauðsynlegt að skipulegga þær vel. Því höfum við í stjórn HH stungið upp á því að skipuð verði fimm manna verkfallsstjórn sem í sitji tveir stjórnarmenn, tveir almennir félagsmenn og einn lögmaður. Hlutverk verkfallsstjórnar verði að skipuleggja og sjá um framkvæmd verkfallsins. Hlutverk lögmannsins verði m.a. að leita allra leiða til að takmarka tjón þátttakenda eins og frekast er kostur. Hugsanlega verði ákveðið að boða verkfallið þegar nægilegur fjöldi hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í hertum aðgerðum með einum eða öðrum hætti. Líkt og um hefðbundið verkfall væri að ræða yrði kröfugerð afhent ríkissáttasemjara við boðun greiðsluverkfalls og þess freistað að fá fá stjórnvöld að samningaborðinu.
En hvers vegna ætti nokkur maður að taka þátt í slíkum aðgerðum? Þessari spurningu er erfitt að svara nema út frá eigin forsendum. Ég er reiðubúinn að deila með ykkur hvers vegna ég myndi íhuga þátttöku.
Í fyrsta lagi ber að nefna skálkaskjól þeirrar efnahagsóstjórnar sem hér hefur liðist, höfuðóvin íslenskrar alþýðu á efnahagslegum grundvelli, sjálfa verðtrygginguna sem verður að afnema með öllu. Verðtryggingin er ekki bara óréttlát svikamylla heldur er hún einnig lögvarið arðrán þar sem eignir almennings eru með skipulögðum hætti færðar elítunni á silfurfati. Að tengja höfuðstól skulda við verðbólgu er auk þess algerlega fráleitt og þjóðhagslega óhagkvæmt. Þetta virðast flestar þjóðir heims skilja.
Í annan stað er óheimilt samkvæmt frumvarpi því sem varð að lögum um vexti og verðtryggingu að tengja fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Gengistryggð lán eru því sjálfsagt ólögmæt. Það að íslensk stjórnvöld kusu engu að síður að leyfa slík neytendalán á sínum tíma er að öllum líkindum ámælisvert.
Í þriðja lagi eru forsendur all flestra lánasamninga brostnar þar sem í mörgum tilfellum hafði annar samningsaðilinn með atferli sínu bein áhrif á höfuðstól skuldarinnar til hækkunnar. Ég er að tala um það hvernig bankarnir, eigendur þeirra og lykilstjórnendur, felldu gengi krónunnar með svo kröftugu handafli að gengistryggð lán tvö- til þrefalduðust og verðtryggð lán hækkuðu um fjórðung á um það bil ári.
Á endanum hlaut eitthvað að láta undan í þessum hamagangi og bankarnir fóru á hausinn hver á fætur öðrum. Fyrstu viðbrögð stjórnvalda við þeirri krísu voru að tryggja innstæður á Íslandi umfram skyldu og bæta duglega í peningamarkaðssjóði til að koma til móts við tap þeirra sem höfðu verið svo ólánsamir að setja í þá fé. Kostnaðurinn við þessar aðgerðir er að sögn á milli 800 og 900 milljarðar. Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei lýst sig gegn þessum aðgerðum þó mönnum sýnist sjálfsagt sitthvað um þær. Aftur á móti höfum við gert þá kröfu að öll sparnaðarform verði varin en ekki bara sum.
Því hvers vegna er sparifé þess sem ákvað að binda það í fasteign ómerkilegra en sparifé þess sem ákvað fjárfesta í peningamarkaðssjóði? Á meðan sumt spariféfé er varið upp í topp er annað gengisfellt eða brennt á verðbólgubáli.
Til þess að bíta svo endanlega höfuðið af skömminni virðast stjórnvöld ætla að fjármagna nýtt bankakerfi með húsnæðisskuldum almennings. Eða hvað? Myndi norrænni velferðarstjórn detta slíkur ósómi til hugar? Að kaupa lánin á hrakvirði úr þrotabúum gömlu bankanna og innheimta þau svo margfalt til baka af fullri hörku? Það er enginn svo óforskammaður að gera nokkuð slíkt, eða hvað?
Góðir fundarmenn.
Að endingu þakka ég gott hljóð og minni á að án réttlætis verður enginn friður.
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Júní 2023
- Júní 2020
- Mars 2018
- Desember 2012
- Desember 2011
- Október 2011
- Október 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Nóvember 2006
Bloggvinir
- godsamskipti
- gummisteingrims
- andres
- dofri
- sigmarg
- gattin
- agustolafur
- ellyarmanns
- emmgje
- finnurtg
- tommi
- hipporace
- arnheidurmagg
- formula
- baldvinj
- launafolk
- dullur
- gisgis
- eirikuro
- erla
- folkerfifl
- fridrikof
- ulfarsson
- gerdurpalma112
- gudni-is
- gullvagninn
- jarnskvisan
- id
- fun
- jamesblond
- jonthorolafsson
- juliusvalsson
- ludvikludviksson
- magnusmar
- marinogn
- maggimur
- hux
- rrs
- sigurdurkari
- siggisig
- sigurgeirorri
- sigurjons
- snorrima
- spurs
- vala
- thordisb
- tbs
- thrudur
- vitinn
Tenglar
Frábær myndbönd
- Frábært gamalt myndband frá Jeremy Clarkson um Ísland Nokkuð skemmtileg afþreying!
Hversu biluð erum við?
http://www.psychiatry24x7.com/
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.